Fara á efnissvæði
26. ágúst 2024

Ásmundur Einar: Svæðisstöðvar og mælistikur

Á síðasta ári urðu þau tímamót að á þingum ÍSÍ og UMFÍ voru samþykktar nokkuð samhljóða tillögur að stofnun svæðastöðva með stuðningi stjórnvalda um allt land auk breytinga á fyrirkomulagi lottógreiðslna. Við settumst niður með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, sem hefur leitt málið af mikilli elju og keyrt það áfram á meiri hraða en búist var við. Svæðastöðvarnar eru liður í miklu stærra verkefni, sem lýtur að aukinni farsæld barna.

„Þegar ég var í félagsmálaráðuneytinu í COVID-faraldrinum fengum við það í gegn að setja á laggirnar sértækan stuðning sem ætlað var að styðja við tómstundaiðkun jaðarsettra barna og barna sem eru í erfiðri og krefjandi stöðu. Vandamálið var hins vegar það að þótt við værum með fjármagn sem bættist við frístundastyrk sveitarfélaga dugði það ekki til. Við náðum ekki til barnanna sem þurftu á stuðningnum að halda og sáum að það voru aðrar félagslegar hindranir sem ollu því að börn í ákveðnum hópum tóku ekki þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Við urðum því að grípa til annarra ráða,“ segir Ásmundur Einar og áréttar að stjórnvöld vilji ná betri árangri í þessu verkefni.

„Rannsóknir sýna að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf er mikilvægt fyrir félagslega sterk börn en þátttaka í íþróttastarfi er enn mikilvægari fyrir börn sem standa félagslega höllum fæti. Til viðbótar erum við að skoða nú hversu mikið íþróttaþátttaka dregur úr þörfinni á sálfræðiþjónustu vegna þunglyndis. Þátttakan hefur svo margvísleg jákvæð áhrif til langs tíma – og það leiðir til lægri kostnaðar í heilbrigðiskerfinu og á fleiri stigum samfélagsins,“ segir Ásmundur Einar og heldur áfram með punktinn sem kom upp um hindranirnar sem komu í ljós þegar beita átti sértækum styrkjum til að ná börnum og ungmennum í skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf í COVID.

Það tókst ekki alveg sem skyldi. En lærdómurinn af því varð meiri fyrir vikið.

„Að einhverju leyti var þetta afleiðing af of lítilli fjármögnun. En að öðru leyti var þetta of lítið samtal á milli skóla og íþróttafélaga. Á vissan hátt má segja að það hafi verið veggurinn ósýnilegi á milli íþróttafélaga og skóla sem stóð í vegi fyrir framgangi verkefnisins. Félögin vissu ekki hvernig ætti að nálgast börnin sem ekki eru í íþróttastarfi og foreldra þeirra. Þarna sáum við að fleiri verkfæri vantaði,“ heldur Ásmundur áfram. „Upp úr þessum vangaveltum mótaðist hugmynd um hvatasjóð. Á sama tíma kom forystufólk frá ÍSÍ og UMFÍ inn í samtalið og sagði að vinna væri í gangi við að setja upp svæðastöðvar. Þetta small saman. Við sáum strax að þetta yrði fyrsta áhersluverkefnið og að við gætum látið ólíka þætti vinna betur saman. Við sáum fyrir okkur líka að hvatasjóðurinn gæti stutt við heildina og leitt til þess að ná betur til barna og ungmenna sem af einhverjum ástæðum stóðu á jaðrinum utan við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf.“

 

Skoða árangurinn

Hvað á svo að gera? Að sögn Ásmundar verður árangur verkefnisins metinn og mældur með reglubundnum hætti. Þetta er líka gert í fleiri verkefnum hins opinbera.

„Við erum að setja hagræna mælistiku á allt sem við gerum og þetta verkefni fellur undir það. Hvatasjóðinn og farsældarlögin vinnum við með fjármálaráðuneytinu. Ef við getum mælt hagrænan ávinning af því að félagslega sterk börn stundi íþróttir skiptir máli fyrir ríki og sveitarfélag og samfélagið í heild að ná fleirum inn í skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. Þar er gríðarlegur ávinningur og við munum meta hann og hvort okkur takist ætlunarverkið – að fjölga iðkendum – á næstu tveimur árum,“ segir Ásmundur og leggur áherslu á að hagrænir mælikvarðar séu alltumlykjandi í starfi ríkisstjórnarinnar.

Í mennta- og barnamálaráðuneytinu verður haldið utan um tölfræðina og er eining þar sem vinnur með hana. Tölfræðiupplýsingarnar eru svo nýttar á farsældarþingum sem ráðuneytið hefur staðið fyrir.

„Við erum að taka Íslensku æskulýðsrannsóknina svolítið á næsta stig því með henni getum við bæði séð tölfræðilegan árangur og hvar við þurfum að gera betur. Við stígum þessi skref í samstarfi við fjármálaráðuneytið og erlenda aðila. Þegar við förum í verkefni eins og þau sem miða að því að fjölga börnum í íþróttum þurfum við að geta mælt arðsemina af því og árangurinn. Við þurfum þess vegna að halda utan um tölfræðina, setja okkur tölfræðileg markmið og fleira í þeim dúr,“ segir Ásmundur og nefnir nauðsyn þess að nýta tól til að mæla árangur af verkefnum. Að öðrum kosti sé svolítið verið að setja fingur upp í vindinn. Vinnubrögð sem þessi séu til þess fallin að auka traust á íþróttastarfi og auka fjárfestingar í því.

Verkefni sem þetta kallar á samtal nokkurra sviða, að mati Ásmundar. „Það er lykillinn að því að nýta tölfræðina í málefnum barna í íþróttum að til verði samtal við önnur kerfi. Ávinningurinn verður nefnilega ekki aðeins til hjá íþróttafélaginu heldur líka í heilbrigðiskerfinu, í dómskerfinu, í félagslega kerfinu og að lokum í skattkerfinu.“

Ef líta má á alla þessa vinnu sem lið í fjárfestingu eru fyrstu skrefin bókstaflega stigin í menntamálaráðuneytinu.

„Við fjárfestum í fyrstu aldursárunum en ávinningurinn birtist í öðrum ráðuneytum. Þess vegna þurfum við að hugsa þvert á landamæri, ráðuneyti og stjórnsýslustig. En þegar upp er staðið erum við að fjárfesta í einstaklingum og samfélaginu. Þá þurfum við að brjóta niður múra og horfa þvert á allt,“ segir Ásmundur og bætir við að þessi vinna öll tengist líka fleiri þáttum, sérstaklega farsældarlöggjöfinni, þar sem kveðið er á um að allir þessir löggjafar eigi að vinna saman.

„Við erum að vinna að uppbyggingu farsældarsvæða. Samtal er í gangi á milli þeirra svæða sem þið ætlið að setja upp í íþróttahreyfingunni, síðan á milli þeirra svæða sem við erum að undirbúa og setja upp í skólamálunum, æskulýðsmálunum og síðan í farsældinni. Sú vinna gengur hratt og vel,“ segir Ásmundur og útilokar ekki að vinnu starfshóps í þá átt verði lokið þegar blaðið kemur út.

 

Svæðastöðvar eru lyklar að árangri

Svæðastöðvarnar er grunnur að nýrri hugsun innan íþróttahreyfingarinnar sem einkennist af meiri samvinnu og samstarfi en áður hefur þekkst. Aðdragandinn að stofnun svæðastöðvanna var unninn innan íþróttahreyfingarinnar og þurfti samþykki á þingum ÍSÍ og UMFÍ. Það náðist í fyrra. Ásmundur, sem ráðherra íþróttamála, greip boltann á lofti og lét hann ganga mun hraðar innan stjórnsýslunnar en nokkurn óraði fyrir.

Ásmundur segir svæðastöðvarnar sem íþróttahreyfingin er að koma á laggirnar nú á vordögum lykilinn að árangri alls þess sem rætt hafi verið á undan. Til að tryggja að allir þessi þættir vinnist saman fundi hann reglulega með lykilfólki frá ÍSÍ og UMFÍ.

„Svæðastöðvarnar eru lykillinn að því að tengja saman allt það sem við erum að gera, þessa hugsun og hugmyndafræði,“ segir hann. „ÍSÍ og UMFÍ áttu hugmyndina að stöðvunum og hún rímaði fullkomlega við það sem við sáum fyrir okkur og alla vinnuna. Þess vegna held ég að ef allir halda rétt á málum geti svæðastöðvarnar orðið lykilbreyta í því að nýta íþróttir í auknum mæli við að hjálpa börnum og ungmennum að verða farsælli til langs tíma,“ segir Ásmundur og bendir að á félagslega hugsunin hjá UMFÍ sé svo sterk, það sé þess háttar hugsun sem þurfi sem mótefni við þróunina í samfélagi nútímans.

„Einsemd er að aukast mikið og hefur sennilega sjaldan verið meiri í samfélaginu. Þessi félagslegi þáttur, samskiptin og hugsunin öll sem felst í ungmennafélagsandanum, getur því verið lykilþáttur í bættri vellíðan og farsæld fólks. Þessi þættir held ég að verði á næstu áratugum afgerandi í lífi ungs fólks. Við mannfólkið þurfum félagslegar tengingar til að virka. Það skiptir máli á öllum aldri, hvort heldur fólk er ungt eða yfir miðjum aldri.“

 

Hvatasjóður styrkir góð verk

Ásmundur og forystufólk íþróttahreyfingarinnar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um stofnun svæðastöðvanna í nóvember 2023. Þá var hálft ár frá því að stofnun svæðastöðva og breyting á lottógreiðslum var samþykkt á þingi ÍSÍ og innan við mánuður síðan sambærileg tillaga var samþykkt á þingi UMFÍ. Á sama tíma greindi Ásmundur frá því að samhliða stofnun svæðastöðvanna yrði komið á fót hvatasjóði sem ætlað yrði að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum. Áherslan þar er börn með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Ásmundur segir sjóðnum ætlað að styðja við heildarverkefnið, að ná betur til barna sem standi utan starfsins og þróa leiðir að skila betri árangri.

„Það eru margar hindranir sem hamla því að ýmsir hópar barna og ungmenna geti tekið þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Sjóðurinn byggir á verkefninu Allir með, sem sprettur upp úr samvinnuverkefni heilbrigðis-, félags- og menntamálaráðuneytis um tómstundir og íþróttaþátttöku barna með fötlun. Það verkefni er hugsað með þeim hætti að ráðuneytin leggja fjármagn til þess. Fyrir tilstuðlan þess er hægt að fara inn í íþróttafélögin, inn í sveitarfélögin og víðar til að átta sig á því hvar þessar hindranir eru. Við þurfum að átta okkur á þeim til að opna betur dyrnar svo að fleiri börn og ungmenni geti tekið þátt í íþróttastarfinu,“ segir Ásmundur og leggur áherslu á að ráðuneyti hans hafi miklar væntingar til sjóðsins.

Sjóðnum og allri þeirri vinnu sem Allir með skilar er ætlað að byggja upp þekkingu sem hægt verði að nýta frá einum stað til annars.

„Við þurfum ekki að finna hjólið upp. Þvert á móti getum við nýtt tímann betur og varið orkunni í að læra hvert af öðru. Við þurfum þess vegna að vera opin fyrir því að miðla þekkingu á milli staða. Haukar í Hafnarfirði hafa sem dæmi náð góðum árangri í íþróttum barna með fötlun. Við þurfum að finna hvað leynist þar sem hægt er að heimfæra á annan stað, hjá öðrum íþróttafélögum og sveitarfélögum,“ segir Ásmundur, en frá því að verkefnið Allir með fór af stað í fyrra hefur Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri þess, unnið ötullega með íþróttafélögum víða um land að útbreiðslu þess.

Þegar Ásmundur var félags- og barnamálaráðherra var í miðjum heimfaraldri settur á laggirnar sértækur sjóður sem hafði sambærilegt markmið og Hvatasjóðurinn, það er að ná betur til barna og ungmenna sem standa utan við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf, en styðja á sama tíma við iðkendur frá tekjulægri fjölskyldum.

Ásmundur segir útfærslu sjóðsins hafa verið flókna og hann því ekki skilað því sem til hafi verið ætlast.

„Áskoranir hans sneru að öðrum og fleiri þáttum. Við sjáum það nú að þótt það sé fjárhagslega þungt víða eru aðrir ytri félagslegir þættir sem ráða frekar för. Í hópi þeirra sem eru með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn þarf sem dæmi aðrar leiðir. Þar felst leiðin í samtali íþróttafélaga við skóla og foreldra barna og þar er líklegra að komi í ljós hvað veldur því að börnin velja yfir höfuð að fara ekki í íþróttir.“ 

 

Betri heimur

Allir þessir þræðir sem áður hafa verið nefndir, svæðastöðvarnar, Hvatasjóðurinn, hagrænu mælistikurnar og allt það sem er gert til að ná betur til barna og ungmenna – og reyndar allra – hafa það að markmiði að auka farsæld á Íslandi. 

Til að ná árangri í þeim efnum er unnið að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið þeirra er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda geti haft aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Í farsældarlögunum svokölluðu er kveðið á um að sveitarfélög skipi svæðisbundin farsældarráð sem verði vettvangur fyrir svæðisbundið samráð um farsæld barna. Ásmundur segir hugsunina þá að á hverju farsældarsvæði verði unnið að því að bæta tölfræðilegan árangur barna á öllum sviðum. Innan mengis hvers barns sé því sveitarfélagið, heilbrigðiskerfið, skólar og íþróttafélög, og leitað verði leiða til að þau geti unnið saman með farsæld barnsins að leiðarljósi.

Ásmundur segir áskoranirnar margar og misjafnar og því hafi það glatt hann þegar íþróttahreyfingin hafi komið fram með hugmyndir um svæðastöðvarnar.

„Þær rímuðu svo vel við það sem við vorum að hugsa. Það er svo mikilvægt að allir geti talað saman og unnið saman þvert á landsvæði. Það er átak að vinna saman. En svæðastöðvarnar búa til möguleika á því og geta tryggt enn öflugra samstarf en áður heima í héraði,“ segir Ásmundur Einar að lokum.

 

Með lögum skal farsæld tryggja

Ekkert er svo tryggt að það lifi endalaust. Það sama gildir um sum verk ráðherra. Allt eins má búast við að þau hætti þegar ráðherra hverfur á braut í kjölfar kosninga. Ásmundur segir tryggt að svo fari ekki fyrir farsældarlögunum. Þau muni lifa áfram.

„Munurinn er að við höfum lögbundið farsældarverkefnið og erum í innleiðingarfasa á þeim lögum. Það er nú skylt lögum samkvæmt að halda samtalinu áfram á milli kerfa og halda farsældarþing. Við gerum ráð fyrir að innleiðingu ljúki eftir 2–3 ár og þá mun ekki lengur skipta máli hverjir eru gerendur og leikendur í málinu. Þá verður það orðið rútína fyrir alla sem vinna með börnum að vinna eftir þessari löggjöf. Síðan er eftirlitsskylda með því. Hún er hins vegar ekki orðin virk af því að við erum að vinna í innleiðingunni,“ segir Ásmundur Einar og rifjar upp að margir hafi komið að vinnu farsældarlaganna. Sú vinna hafi verið þvert á flokka, ráðuneyti og samtök. Nú sé svo komið að á hverju ári fari 100 til 150 einstaklingar í gegnum sérstakt diplómunám við Háskóla Íslands þar sem farsældarhugsunin er leiðarljósið. Á síðastliðnum fimm árum séu 600 til 800 manns farnir að vinna eftir hugmyndafræðinni.

Ásmundur segir farsældarlögin og allt þeim tengt ætlað að grípa börn og ungmenni sem standi frammi fyrir áskorunum fyrr en verið hafi.

„Ef barn er að glíma við áskoranir þurfum við að grípa það snemma. Ef okkur tekst það fækkar vandamálunum og auðveldara verður að vinna með fleirum að málinu. Það er því hluti af innleiðingunni að tengja skóla og íþróttahreyfinguna inn í samtalið. Við sjáum einmitt að í þeim sveitarfélögum þar sem verklagið hefur verið innleitt fækkar barnaverndarmálum. Við sjáum einmitt að reykskynjarar virka með sama hætti. Þeir gera það að verkum að fólk getur kallað slökkviliðsbílana út. Íþróttir og tómstundir og þessi óformlegi hluti menntakerfis okkar eru þess vegna ótrúlega mikilvæg í þessari snemmtæku hugsun.“

 

Litli ég er víða

Velferð barna hefur lengi verið ofarlega í huga Ásmundar Einars, en hann er fyrstur til að bera titil barnamálaráðherra. Hann ræddi velferðina í áhrifaríku viðtali við Morgunblaðið seint í nóvember árið 2020. Þar kom fram að hann átti sjálfur erfiða barnæsku og kom frá brotnu heimili, þar sem félagslegt bakland hans var lítið. Af þeim sökum legði hann áherslu á málefni barna til að það gæti hjálpað öðrum í sambærilegum aðstæðum.

Ásmundur viðurkennir að hann brenni enn fyrir málinu einmitt út af eigin sögu.

„Það er ekkert leyndarmál að ég sé litla mig ansi víða. Þegar maður brennur fyrir einhverjum málum er það oft af því að maður hefur reynt sig á því. En út af þessu veit ég líka að það þarf oft ekki stóra og dýra hluti til að rétta af einstaklinga og aðstoða þá til að komast á rétta braut í lífinu. Ég brenn fyrir því og vil að kerfin okkar tali saman. Þess vegna vil ég sjá innleiðinguna virka. Við þurfum auðvitað svolítinn tíma enn til að tryggja að innleiðingin verði í lagi, til að sjá raunverulegar breytingar á málaflokknum,“ segir Ásmundur og bendir á að snemmtæk íhlutun í kjölfar farsællar innleiðingar geti dregið úr ofbeldi á meðal ungmenna.

„Í öllum hinum vestræna heimi er ofbeldi á meðal ungmenna að aukast. Hnífaburður og annað slíkt er að vaxa, og nú erum við að teikna upp með öllum aðilum hvernig við ætlum að vinna þetta á staðbundnum grunni. Það getur enginn einn aðili dregið úr þessu. Það þarf mjög víðtækt samtal og samstarf allra aðila. Ef við ætlum að snúa þróuninni við verðum við að nýta íþróttir og tómstundir. Þær skipta svo miklu máli því að þau sem eru komin út á brautir sem lofa ekki góðu treysta oft ekki skólakerfinu og félagsþjónustunni. Á hinn bóginn treysta þau ýmist á íþróttafélögin eða félagsmiðstöðvarnar. Það sýnir hvað þetta eru mikilvægir aðilar í heildarmyndinni,“ segir Ásmundur Einar.

Lesa meira í Skinfaxa

Rætt er við Ásmund Einar í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur smellt á hlekkinn hér að neðan og myndina af forsíðu blaðsins og lesið allt blaðið á netinu. 

Lesa nýjasta tölublað Skinfaxa