Fara á efnissvæði
25. júlí 2018

Ásrós í Between Mountains spennt að spila í Þorlákshöfn

„Þetta verður fjölbreytt hjá okkur, róleg lög í bland við fjörug. Við eigum örugglega eftir að hafa mjög gaman af því að spila fyrir okkar aldurshóp. Við höfum ekki gert það fyrr,“ segir Ásrós Helga Guðmundsdóttir, annar meðlimur hljómsveitarinnar Between Mountains sem spilar á Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina.

Hljómsveitin spilar föstudagskvöldið 3. ágúst. Sama kvöld koma fram Flóni og Joey Christ.

Ásrós segir tónlist Between Mountains öðruvísi á tónleikum en í sjónvarpi og á upptökum. „Það er bara allt öðruvísi að sjá hljómsveitir live. Það er svo miklu skemmtilegra,“ segir hún. Hjómsveitin frumflutti ný lög um síðustu páska og blandar þeim við eldra efni á tónleikunum á Unglingalandsmótinu.

Með Ásrós í bandinu er Katla Vigdís Vernharðsdóttir. Hljómsveitin var stofnuð í fyrravor og sigraði í Músíktilraunum árið 2017. Síðan þá hefur verið nóg að gera hjá Between Mountains, sem spilaði meðal annars á Secret Solstice í Laugardalnum í júní. Verslunarmannahelgin er plönuð hjá þeim. Fjörið byrjar á Flateyri fimmtudaginn 1. ágúst. Þaðan halda þær suður í Þorlákshöfn og fara svo aftur vestur á laugardaginn að spila á Ingjaldssandi þaðan sem faðir Ásrósar er ættaður.

„Ég er alltaf á Ingjaldssandi um verslunarmannahelgina. Þar ætlum við að hafa kósý og spila í gamalli hlöðu,“ segir Ásrós.

 

Kynntust í blaki hjá HSV

Þær Ásrós og Katla eru á sama aldri og stór hluti þátttakenda á Unglingalandsmóti UMFÍ sem er fyrir 11-18 ára. Þær hafa þó hvorugar tekið þátt á Unglingalandsmóti UMFÍ, hvorki sem tónlistarmenn né keppendur.

Ásrós er 17 ára frá Núpi í Dýrafirði en Katla er 16 frá Suðureyri við Súgandafjörð. Þær kynntust þegar þær æfðu blak með blakfélaginu Skelli á Ísafirði. Skellur er nú blakfélagið Vestri sem er undir Héraðssambandi Vestfirðinga (HSV). HSV er sambandsaðili UMFÍ. Ásrós hefur hætt æfingum en Katla er enn að og er í landsliðinu í blaki.

 

Langar að sjá afa og ömmu á tónleikunum

Ásrós þekkir vel til Þorlákshafnar.

„Afi og amma fluttu þangað úr Vestmannaeyjum í gosinu með mömmu mína og systkini hennar. Þau búa þarna enn og tvö systkini mömmu. Ég kem þangað reglulega. Það væri gaman að sjá afa og ömmu á tónleikunum okkar því það er ekki oft sem þau hafa tækifæri til að koma,“ segir Ásrós í Between Mountains.

 

Unglingalandsmót UMFÍ 2018 fer fram dagana 2. - 5. ágúst í Þorlákshöfn. Skráningargjald er 7.000kr. Öll ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag. Skráning er í fullum gangi á www.ulm.is. Skráning er til 30. júlí.

Fjöldi tónlistarmanna kemur fram á kvöldvökunum á Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. 

Svona verður skemmtidagskráin á kvöldvökunum.

 

Fimmtudagur 2. ágúst

Kvöldvaka: DJ Dóra Júlía. 

 

Föstudagur 3. ágúst

Setning: Flóni. 

Kvöldvaka: Flóni - Between Mountains - Joey Christ.

 

Laugardagur 4. ágúst

Kvöldvaka:  Young Karin - Jói Pé og Króli - Emmsjé Gauti. 

 

Sunnudagur 5. ágúst

Kvöldvaka:  Mió Tríó - Herra Hnetusmjör og Kóp Bois (Joe Frazier - Huginn og DJ Egill Spegill) - Jón Jónsson.

 

Meira um mótið á www.ulm.is