Fara á efnissvæði
17. september 2020

Ástþór Jón: Við þurfum fjölbreytt námsval

„Við þurfum fjölbreyttan skóla, námsval og margbreytileika. Það er ekki endilega víst að það bæti nokkuð að skera I burt valgreinar í skólum fyrir börn og ungmenni,‟ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður Ungmennaráðs UMFÍ.

Í ávarpi sínu við setningu ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði sem nú fer fram í Hörpu í Reykjavík vakti hann máls á breytingum á viðmiðunarrskrá grunnskóla sem er nú til samráðs í samráðsgátt frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Að hans sögn felur breytingin í sér að niður falli valgreinar fyrir börn í 1-7. bekk í grunnskóla og að skorið verði niður val nemenda í 8-10.bekk. Í staðinn verði bætt við íslensku og náttúrugreinum.

„Tilefni breytinganna er sagt vera viðvarandi slakur árangur nemenda í PISA könnunum. Þetta mál virðist eiga að kýla áfram - án aðkomu ungmenna. Við höfum lent í slíku áður, svo sem þegar framhaldsskólarnir voru styttir. Þar var ákvörðun tekin sem varða ungt fólk, um mál fyrir ungt fólk en án ungs fólks. En ekkert liggur á. Við verðum að horfa á heildina. Skólinn er ekki keppni. PISA-kannanir eru ekki keppni. Þar vinnur enginn. Ekki hampa einsleitninni. Við þurfum fjölbreyttan skóla, námsval, margbreytileika í hugsun og háttum. Það er ekki endilega víst að það bæti nokkuð að skera í burt valgreinar í skólum fyrir börn og ungmenni – allra síst án aðkomu ungmenna,‟ sagði hann og hvatti ráðstefnugesti til að kynna sér breytingarnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Það er ungmennaráð UMFÍ sem stendur fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Yfirskrift hennar er: Lýðræðisleg áhrif: Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif.

Ráðstefnan er samræðuvettvangur ungs fólks á aldrinum 16 - 25 ára. Markmið og tilgangur ráðstefnunnar er að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og gefa okkur, ungu fólki, verkfæri og þjálfun til þess að auka áhrif í okkar nær samfélagi.

Dagskráin verður með fjölbreyttu sniði. Kynningar, málstofur, hópefli og önnur skemmtilegheit sem við í Ungmennaráði UMFÍ skipuleggjum.  

 

Meiri upplýsingar um Ungt fólk og lýðræði og dagskrá

Myndir frá setningu ráðstefnunnar