Fara á efnissvæði
28. nóvember 2017

Átak gegn kynbundnu ofbeldi

Nú stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem hófst þann 25. nóvember eða á Alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum. Átakinu lýkur á Alþjóðlega mannréttindadeginum 10. desember næstkomandi.

Á vef Landlæknisembættisins segir að ljóst sé af umfjöllun undanfarinna missera að þótt íslenskt samfélag standi einna best að vígi hvað varðar jafnrétti kynjanna, þá sé enn umtalsvert verk að vinna. Auk þess að hlúa vel að þeim sem verða fyrir ofbeldi er mikilvægt að leggja áherslu á að koma í veg fyrir ofbeldi og allan þann skaða sem það getur valdið. 

 

Verum örugg saman

Landlæknisembættið hefur jafnframt gefið út forvarnarefni um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í samskiptum og samböndum unglinga. Efnið er ætlað til kennslu í efri bekkjum grunnskóla. Það heitir Örugg saman og býðst skólum að kostnaðarlausun. Námsefnið er tilraunakennt og hefur því verið vel tekið bæði af nemendum og kennurum.

 

UMFÍ aflar upplýsinga úr sakaskrá

UMFÍ leggur áherslu á að samkvæmt Æskulýðslögum er óheimilt að ráða einstaklinga til starfa sem hafa hlotið refsidóma vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefna eða kynferðisbrota. Æskilegt er að allir þeir sem starfa með börnum og ungmennum skili inn samþykkt fyrir því að þeirra aðildarfélag hafi heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá. Heimildin veitir félögum rétt til að sækja gögn vegna ofbeldisbrota (3 - 5 ár aftur í tímann), vegna ávana- og fíkniefnabrota (3 - 5 ár eftir í tímann) og vegna kynferðisbrota (engin tímamörk).

Sambandsaðilar UMFÍ og aðildarfélög þeirra geta haft samband við þjónustumiðstöð UMFÍ og leitað eftir því að UMFÍ fái sakavottorð þeirra sem sækja um störf hjá viðkomandi félagi.

Sambandsaðilum UMFÍ býðst að senda eyðublöð til framkvæmdastjóra UMFÍ. UMFÍ þarf ekki að greiða fyrir þessa þjónustu hjá sakaskrá sem annars kostar 2.500kr. á hvert eyðublað.

Hér er eyðublað UMFÍ

Nánari upplýsingar fást í þjónustumiðstöð UMFÍ og í síma 568-2929.