Auður Inga og Lárus á samráðsfundi stjórnvalda
Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, unnu saman í vinnuhópi á samráðsfundinum Að lifa með veirunni sem fram fór í dag. Það var heilbrigðisráðherra í samvinnu við forsætis- og dómsmálaráðuneytið sem efndi til fundarins.
Fundurinn var í formi vinnustofu um áframhaldandi aðgerðir vegna Covid-19 til lengri tíma litið. Efnt var til samráðsins í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.
Fram kemur á vefsíðu stjórnarráðsins að fundurinn markar upphaf samráðsins og verður afraksturinn birtur í samráðsgátt stjórnvalda. Markmið hans er að stilla saman strengi og móta áherslur og leiðarljós sem geta nýst í áframhaldandi vinnu við mótun aðgerða vegna Covid-19 á næstu misserum þar sem ekki er vitað hve lengi kórónaveiran verður áhrifavaldur í samfélaginu. Af þeim sökum verði landsmenn að búa sig undir að lifa með henni til lengri tíma.
Í grein Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem birt var í aðdraganda fundarins segir að á fundinum verði haldnar vinnustofur þar sem fjallað verði um stöðuna vegna Covid-19 á afmörkuðum sviðum, áhrif og afleiðingar sóttvarnaaðgerða hingað til og hvernig sjá megi framtíðina fyrir sér svo lengi sem kórónaveiran setur mark sitt á samfélagið.
Í lokin voru pallborðsumræður þar sem þátttakendur drógu saman meginlærdóminn af fundinum, vinnu hópanna og hvernig megi nýta samráðið áfram þannig að sem best megi taka tillit til margvíslegra aðstæðna og ólíkra hagsmuna.
Þau Auður og Lárus sátu í vinnuhópi um menningu, íþróttir og dægradvöl ásamt fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna, Setbergsskóla og tónlistarmanninum Helga Björns. Borðstjóri vinnuhópsins var Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
Til að gefa sem flestum kost á að fylgjast með var streymt beint frá fundinum á vef Stjórnarráðsins og var hann sýndur beint á RÚV 2.
Hægt er að sjá upptöku af fundinum á vefsíðu Stjórnarráðsins: Upptaka af fundinum.