Fara á efnissvæði
20. júlí 2017

Besta mótið!

Um verslunarmannahelgina verður Unglingalandsmót UMFÍ haldið á Egilsstöðum. Það má alveg reikna með yfir 1.000 keppendum á aldrinum 11-18 ára og allt að tíu þúsund gestum. Mótið mun setja mark sitt á allt Austurland – og þú getur verið með!

Á mótinu verður keppt í meira en 20 greinum, auk þess sem hægt er að prófa margar. Til viðbótar við það verður mikil afþreying í boði fyrir alla fjölskylduna alla helgina. Á kvöldvökum koma fram landsþekktir tónlistarmenn sem verða á rúnti um landið allt. Mótshaldari er Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA).

Til að mótið gangi sem best þarf mikinn fjölda sjálfboðaliða, m.a. til að dæma leiki, mæla stökk, vísa hjólreiðafólki rétta leið, tryggja að aðrir sjálfboðaliðar hafi mat og að allir gestir mótsins njóti upplifunarinnar sem best. Gestirnir eru nefnilega ekki bara að koma í Egilsstaði heldur munu þeir nota tækifærið til að fara um fjórðunginn.

Það þýðir að við sem tökum á móti þeim erum öll að vinna fyrir Austurland. Þar með erum við um leið orðin hluti af liðinu sem tekur þátt í keppninni. Metnaður sjálfboðaliðanna liggur nefnilega ekki í því að stökkva sem lengst. Sjálfboðaliðinn leggur sitt af mörkum til að tryggja að gestirnir fari heim sannfærðir um að þeir hafi verið á besta Unglingalandsmóti sögunnar og að Austurland sé besti staður í heimi.

Auðvitað vitum við þetta – en við viljum stimpla það inn í huga gesta mótsins. Við höfum alltaf vitað að við höfum veðrið, við vitum að við höfum landslagið, við höfum frábæra keppnisaðstöðu – en það sem fólkið sem kemur á mótið vill kynnast – og fær að kynnast – er að við höfum frábært fólk í öllum stöðum.

Svo hvað þarf til að vera góður sjálfboðaliði?
Það geta allir verið sjálfboðaliðar. Verkefni þeirra á mótinu eru fjölbreytt og hægt að velja úr þeim.

Hvernig á ég að vera góður sjálfboðaliði?

Vertu opinn við gestinn, farðu til hans, bjóddu honum góðan daginn og spyrðu hvort þú getir aðstoðað. Kannski vill gesturinn vita hvar hægt er að sjá úrslitin í körfuboltanum eða hvar besti ísinn er á Austurlandi. Það er enginn spurning að heimamaðurinn hefur innsýn sem hann getur deilt með gestum Unglingalandsmótsins. Heimamaðurinn elskar staðinn sinn – en láttu gestinn finna að þú elskar Austurland. Njóttu félagsskaparins, njóttu þess að sjá keppandann reyna að sigra sjálfan sig og aðra, njóttu þess að prófa mögulega eitthvað nýtt.

Hvað fæ ég út úr því að vera sjálfboðaliði?

Unglingalandsmótið er eitt stærsta og fjölbreyttasta mót sem haldið er á Íslandi á hverju ári. Að jafnaði má búast við að það sé haldið á Austurlandi á 6-7 ára fresti. Við mótið starfar fjöldi fagfólks sem kemur með reynslu sem læra má að. Þú hittir nýtt fólk og sérð kunnugleg andlit úr nágrenninu í nýju ljósi. Eftir helgina stendurðu uppi með nýja reynslu og ný tengsl. Fyrir utan ánægjuna af því að tilheyra Austurlandsliðinu sem ætlar að halda besta mót sögunnar og sýna hversu frábært Austurland er.

Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA og stjórnarmaður í UMFÍ

Greinin birtist á fréttavefnum Austurfrétt á dögunum.

Nánari upplýsingar er að finna á uia.is og umfi.is