Fara á efnissvæði
28. júní 2019

Besta veðrið á Landsmóti UMFÍ 50+ í Neskaupstað

„Þetta er  besta veðrið hér, suðvestan, skínandi sól og léttur andvari. Þegar ég fór að hita upp fyrir keppni í sundlauginni áðan sýndi mælirinn 23 gráður,“ segir Jón Hlífar Aðalsteinsson, íbúi í Neskaupstað og þátttakandi á Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fer í Neskaupstað um helgina. Til að hjálpa þátttakendum mótsins að kæla sig fá þeir allir frítt í sundlaug bæjarins á meðan mótinu stendur.

Á sama tíma hljómar spá Veðurstofunnar upp á suðvestan 5-13 m/s og smáskúrum í flestum landshlutum. Hita 10 til 21 stigum. 

Sólin skín á þátttakendur mótsins, sem eru 50 ára og eldri, þegar þeir hófu keppni í boccía í íþróttahúsinu í Neskaupstað klukkan 9:00 í morgun. Um þrjú hundruð manns eru skráðir í næstum tuttugu keppnisgreinar. Svo skemmtilegar greinar eru í boði á mótinu að þátttakendur hafa komið í þjónustumiðstöð mótsins í Verkmenntaskóla Austurlands og skráð sig í fleiri greinar en þeir ætluðu upphaflega að taka þátt í.

Til viðbótar fylltist tjaldstæðið strax í gærkvöldi og voru þó ekki allir þátttakendur búnir að skila sér í hús. Af þeirri ástæðu varð að nýta tjaldstæði sem annars er notað á Neistaflugi um verslunarmannahelgar.

Á meðal annarra greina sem keppt verður í í dag eru frjálsar, ringó og línudans. Þar að auki verður kynning á ringó, sjósund fyrir alla, zumba, fitness og mótið sett við hátíðlega athöfn.

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá blábyrjuninni í keppni í boccía.