Fara á efnissvæði
07. janúar 2025

Birna: Hugsum heildrænt um íþróttastarfið

Birna Hannesdóttir er í starfshópi átta svæðisstöðva íþróttahéraðanna sem tóku til starfa á síðasta ári. Hún er búsett á Patreksfirði, vinnur á Vestfjörðum og horfir til þess að aukið samstarf skili sér í betri íþróttahreyfingu.

Rætt var við starfsfólk svæðisstöðvanna í Skinfaxa á síðasta ári, rætt um bakgrunn fólksins og væntingar til starfsins. 

 

Þetta er Birna

Nafn: Birna Friðbjört Stephensen Hannesdóttir

Aldur: Ég er 44 ára, á besta aldri.

Hvert er þitt svæði? Vestfirðir eða, eins og við Vestfirðingar viljum meina … Bestfirðir.
Hvar á landinu býrðu? Ég bý á Patreksfirði með manninum mínum og fimm börnum en er uppalin á Bíldudal og verð alltaf Bílddælingur í hjartanu.

Menntun og fyrri athyglisverð störf/störf? Ég er með BSc í Ferðamálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein, MLM í Forystu og stjórnun, MEd í Kennslufræði grunnskóla og viðbótardiplómu í Stjórnun menntastofnana. Ég starfaði sem skólastjóri seinustu 5 ár, en önnur helstu störf eru kennsla, rekstrarstjórnun veitingastaðar/verslunar, þjálfun og sjálfboðaliðastörf innan íþróttahreyfingarinnar fyrir Héraðssambandið Hrafna-Flóka (HHF), Íþróttafélagið Hörð (ÍH) - á Patreksfirði og Íþróttafélag Bílddælinga (ÍFB). Er í dag formaður HHF og ÍH.

Ertu með bakgrunn í íþróttum eða einhver tengsl við íþróttir? Já ég var/er iðkandi í íþróttum og hef þjálfað on/off síðan ég var 18 ára. Ég var sem barn í þeim íþróttum sem var í boði að stunda en þó mest í frjálsum og körfubolta. Ég spilaði með strákunum í körfu en húkkaði mér svo stundum far yfir á Patró (yfir tvö fjöll og slæma malarvegi) með mjólkurbílnum eða einhverjum sem var á leið yfir til þess að fara á æfingar með stelpunum á Patró. Ég náði góðum árangri í frjálsum og var meðal annars í FRÍ 2000 afrekshópnum, mínar aðalgreinar voru köstin og þá sérstaklega spjótkast. Ég fór fljótt í hnjánum, 18 ára búin að fara 4x í liðþófaaðgerð og aðrar 3 eftir það. Það varð því lítið um framhald eftir það en ég bjó einnig við þær aðstæður að búa ein í Reykjavík til þess að sækja menntaskóla og vantaði þar m.a. stuðninginn og utanumhaldið til þess að halda áfram á þessu sviði.

Hefur þér fundist eitthvað þurfa að laga í umhverfi íþrótta á Íslandi? Það er margt sem þarf að laga og sérstaklega það sem snýr að litlu þorpunum um allt land. Þar eru aðstæður allt aðrar en stærri staðirnir búa við. Við þurfum að auka skilning á aðstæðum og auka stuðning til þess að iðkendur á minni svæðum geti stundað íþróttir. Það eru alls konar hindranir sem hafa áhrif á daglegt starf og uppbyggingu á svæðinu. Einnig er fækkun í störfum sjálfboðaliða (landlægt vandamál) en starf sjálfboðaliða skiptir svo miklu máli í heildarsamhenginu. Erfitt er að fá fólk til að taka virkan þátt í stjórnum, þeir sem taka slaginn brenna fljótt út því mikið lendir á sama fólkinu.

Brennur þú fyrir einhverju tilteknu sem þú vilt sjá verða að veruleika? Ég vil sjá aukna þátttöku og samvinnu ríkis, sveitarfélaga og samfélagsþegna til þess að byggja upp öflugt íþróttastarf um allt land. Við þurfum að hugsa íþróttastarf heildrænt, þetta kemur öllum við. Saman erum við sterkari og ef við göngum í takt þá mun það hafa gríðarleg áhrif á samfélögin okkar.

Hvernig líst þér á hópinn? Þessi hópur er samsettur af frábærum, skemmtilegum og einstökum
einstaklingum þar sem blandast fólk með mismunandi bakgrunn, styrkleika og áhuga. Ég held að þessi hópur eigi eftir að vinna eftirtektarvert starf á næstu árum og ég er full tilhlökkunar að fá það tækifæri að vera hluti af þessum hópi og því starfi.

Hvaða væntingar hefur þú til vinnu starfshóps svæðisstöðvanna? Ég hef væntingar til aukins
samstarfs mismunandi aðila. Við í svæðisstöðvunum gerum þetta ekki ein og ekki hægt að ætlast til þess heldur þarf öll íþróttahreyfingin, sveitarfélögin og ríkið að vinna þetta verkefni með okkur.

Hvernig sérðu fyrir þér árangur af vinnunni á næstu árum? Ég tel að með samstilltu átaki þá séum við að fara að bæta umhverfi íþrótta um land allt þar sem allir staðir eiga eftir að eflast að því sögðu að við náum því samstarfi sem þarf til þess að uppbygging geti orðið.

Meira um svæðisstöðvar íþróttahéraðanna

Á þingum ÍSÍ og UMFÍ í fyrra voru samþykktar tillögur um eflingu íþróttastarfs á landsvísu og að koma á fót átta svæðisstöðvum um allt land.

Tveir starfsmenn eru á hverri svæðisstöð. Störfin voru auglýst í vor og bárust meira en 200 umsóknir um þau. Búið er að manna allar stöður og vinna er komin á fullt á svæðisstöðvunum um allt land. Hlutverk svæðisstöðvanna er að þjónusta með samræmdum hætti íþróttahéruðin í nærumhverfi hvers þeirra. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar í heild og geri hverju íþróttahéraði kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni, styrki stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu, stuðli með þeim hætti að farsæld barna og allra þeirra sem nýta þjónustu íþróttahreyfingarinnar.

Viðtalið við Birnu er í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þar er líka rætt við fleiri svæðisfulltrúa íþróttahreyfingarinnar. Hægt er að lesa Skinfaxa í heild sinni á umfi.is. Líka er hægt að smella á myndina hér að neðan og opna blaðið. 

Lesa Skinfaxa