Fara á efnissvæði
07. nóvember 2019

Bjarki er nýr framkvæmdastjóri HSV

„Ég er mjög spenntur, lýst vel á starfið og flutning vestur. Námið mun líka nýtast mér mjög vel,“ segir Bjarki Stefánsson. Hann hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Héraðssambands Vestfirðinga (HSV), sambandsaðila UMFÍ.

Bjarki er Púllari úr Árbænum og er með fjölbreyttan bakgrunn sem íþróttamaður, iðkandi, þjálfari og kennari. Hann æfði fótbolta og handbolta með Fylki og ÍR á unglingsárum en færði sig yfir til Aftureldingar á menntaskólaárum og spilaði í meistaraflokki. Bjarki er íþróttafræðingur frá Háskóla Íslands og var á meðal þeirra síðustu til að útskrifast úr náminu þegar það var á Laugarvatni.

Bjarki útskrifast í desember úr meistaranámi í stjórnun og rekstur íþróttafélaga (e. Sport Business and Management) frá háskólanum í Liverpool í Bretlandi og fjallaði lokaverkefni hans um tölfræði knattspyrnuliða í Bretlandi, Þýskalandi og víðar.

Bjarki tekur við starfinu af Sigríði Láru Gunnlaugsdóttur, sem hefur gegnt því síðastliðin fimm ár.

„Ég er hæstánægð með ráðninguna enda verður HSV í öruggum og góðum höndum,“ segir hún.

Þau Sigríður og Bjarki, sem hér eru saman á myndinni að ofan, munu vinna saman í desember. Í janúar fer Sigríður svo í fullt starf sjúkraþjálfara við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

UMFÍ óskar Bjarka og HSV til hamingju.