Fara á efnissvæði
11. janúar 2021

Bjarki hjá HSV: Gleðiefni að ungt fólk getur byrjað að æfa á ný

„Nú er loks farið að birta aftur til og það er gleðiefni,“ segir Bjarki Stefánsson, framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga (HSV), spurður út í breytingu á samkomutakmörkunum sem taka gildi á miðvikudag, 13. janúar næstkomandi. Í afléttingunni felst m.a. að íþróttaæfingar og annað íþróttastarf barna og fullorðinna verður heimilað að nýju með og án snertingar að uppfylltum skilyrðum og leyft að keppa í íþróttum án áhorfenda.

Fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðherra, sem byggir á minnisblaði sóttvarnalæknis, að hámarksfjöldi á æfingum og keppnum miðast við 50 manns. Búningaaðstaða skuli þrifin reglulega og snertifletir sótthreinsaðir milli hópa. Þá skulli sameiginleg áhöld sótthreinsuð a.m.k. tvisvar á dag, loftræsting vera í lagi og loftað reglulega út yfir daginn.

 

Í reglugerðinni segir ennfremur að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) setji sérsamböndum reglur, svo sem um einstaklingsbundna sóttvarnir og sótthreinsun búnaðar, um framkvæmd æfinga og keppna í sínum greinum í samvinnu við sóttvarnalækni. Í íþróttum sem ekki tilheyri ÍSÍ skuli setja leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbeiningum og sambærilega íþróttir innan sambandsins.

Áhorfendur eru eftir sem áður óheimilir á íþróttaviðburði, hvort heldur er æfingar og keppnisleikjum. Þó er heimilt að hafa fjölmiðlafólk á slíkum viðburðum.

 

 

Bjarki segir að lýst vel á reglugerðina þótt áhorfendur geti enn ekki fylgst með æfingum og keppnum.

„Það var þungt í mönnum í kringum jólin, sérstaklega framhaldsskólanemendur sem voru teknir út fyrir sviga,“ segir Bjarki og bætir við að fagnaðarefni sé að ungmenni á framhaldsskólaaldri geti nú loks byrjað að æfa og keppa á ný.

„Úr því þau geta æft nú hljótum við að geta sætt okkur við að áhorfendur mega ekki horfa á leikina,“ segir hann.

 

HSV er einn 28 sambandsaðila UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn. Á meðal aðildarfélaga HSV eru íþróttafélög á norðanvestum Vestfjörðum. Þar á meðal Íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri, íþróttafélagið Ívar á Ísafirði, Vestri, siglingaklúbburinn Sæfari, ungmennafélagið Geisli og mörg fleiri. 

Reglugerð heilbrigðisráðherra