Fara á efnissvæði
08. janúar 2020

Bjarki lærði að hlakka til keppnisdaganna

Andlegi þátturinn í þjálfun skiptir sköpum við æfingar í íþróttum. Golfarinn Bjarki Pétursson átti mjög oft erfitt uppdráttar dagana fyrir keppni þegar hann var yngri, varð oft flökurt fyrir keppnisdaga og svaf lítið sem ekkert. Hann leitaði til andlegs þjálfara og hefur það skilað honum góðum árangri.

Bjarki var á dögunum kjörinn íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2019. Hann stóð sig vel á árinu og var í sigurliði Kent State í Mid-American Conference 2019. Hann spila líka fyrir hönd Íslands á Evrópumóti einstaklinga, liða í Austurríki og í Svíþjóð. Hann var sá áhugamannakylfingur sem var á besta skori í atvinnumannamóti í Finnlandi sem er á vegum Nordic League mótaraðarinnar. Bjarki er einnig  einn fimm Íslendinga sem hafa unnið sér inn keppnisrétt í Challange Tour mótaröðinni. Hann var eini áhugakylfingurinn í heiminum árið 2019 sem komst í gegnum 2. stig og spilaði á 3. stigi fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Um er að ræða sterkustu mótaröðina í Evrópu og næst sterkustu í heiminum. 

Bjarki segist hafa fundið mikla breytingu eftir að hann fór að vinna með „mental coach“ eða því sem hann nefnir þjálfara sem leggur áherslu á andlega þáttinn í æfingum og íþróttaiðkun. Sá sérhæfir sig í golfi og er búsettur í Bandaríkjunum.

„Ég hef unnið með honum í að verða fimm ár núna og finn fyrir miklum breytingum. Sem dæmi get ég sofið án kvíða fyrir komandi keppnisdögum og mögulegum útkomum á þeim. Kvíðinn og stressið hefur í raun færst yfir í spennu og tilhlökkun. Það er í raun engin ákveðin aðferð hjá mér við að þjálfa andlegu hliðina nema bara ræða við minn þjálfara og hugleiða eða sjá fyrir mér aðstæður sem ég mun lenda í og sjá fyrir mér hvernig ég ætla að tækla þær. Ótrúlegt en satt, þegar maður lendir í þessari aðstöðu sem maður er búin að sjá fyrir sér, þá gengur betur,“ segir hann og telur andlega þáttinn í þjálfun geta skipt sköpum fyrir iðkendur í íþróttum.  

„ Ég er samt líka á því að maður verður að finna sér einstakling sem hentar manni. Ég prófaði nokkra sálfræðinga og/eða andlega þjálfara hérna heima áður en ég fór að vinna með mínum þjálfara úti, og þessir einstaklingar hérna heima hentuðu mér ekki,“ segir hann.