Fara á efnissvæði
23. maí 2022

Bjarney er nýr framkvæmdastjóri UMSB

„Það er öðru fremur frábært að fá allt þetta traust. En síðan fæ ég það á tilfinninguna eins og allt sem ég hafi lært og í gegnum tíðina smelli saman í þessu starfi,“ segir Bjarney Bjarnadóttir, sem hefur verið ráðin í starf framkvæmdarstjóra Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Hún tekur við starfinu í júní.

Bjarney tekur við starfinu af Sigurði Guðmundssyni, sem var tímabundið ráðinn sem forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni. Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir gekk tímabundið í stöðu hans í Borgarnesi á meðan. Sigurður hefur nú verið ráðinn í starf forstöðumanns til framtíðar og þurfti að ráða eftirmann hans í Borgarbyggð.

Eins og Bjarney segir sjálf er eins og allt smelli með ráðningu hennar. Hún er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík en með kennsluréttinda fyrir grunn- og framhaldsskóla og hefur kennt við grunnskólann síðan hún flutti í Borgarnes árið 2019. Hún leggur líka stund á meistaranám í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun.

Bjarney er auk þess með víðtækan bakgrunn í íþrótta- og lýðheilsustarfi. Hún hefur unnið sem einkaþjálfari og spinningkennari bæði hérlendis sem og erlendis og verið aðstoðarkennari í verklegu námi í ÍAK einkaþjálfaranámi Keilis.

Bjarney hefur aðeins fengið að kynnast starfi UMSB en síðastliðið ár hefur hún auk alls annars verið formaður badmintondeildar Skallagríms.

Bjarney er reyndar uppalinn ÍR-ingu og bæði þjálfaði og spilaði handbolta með bæði ÍR og Val. Hún fagnar þeim árangri að hafa verið bæði Englands- og bikarmeistari í handbolta en hún spilaði m.a. handbolta með Ruislip Eagle í Englandi í eitt ár. Hún hefur bæði kennt íþróttir og lífsleikni og komið að heilsueflingu fatlaðra og síðustu ár starfað sem umsjónarkennari við grunnskólann í Borgarnesi.

Bjarney er gift Sigurkarli Gústavssyni lögreglumanni og samtals eiga þau fjóra drengi.