Fara á efnissvæði
25. febrúar 2021

Bjarney og Sveinn sæmd Gullmerki UMFÍ

Keflvíkingarnir Bjarney S. Snævarsdóttir og Sveinn Adolfsson voru heiðruð með gullmerki UMFÍ á aðalfundi Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, á þriðjudag. Á sama tíma hlutu þau Hilmar Örn Jónasson, Guðný Magnúsdóttir og Jónas Andrésson starfsmerki UMFÍ. Til viðbótar hlotnaðist Einari Skaftasyni sá heiður að fá starfsbikar Keflavíkur fyrir árið 2020.

Jóhann Steinar Ingimundarson, varaformaður UMFÍ, var fulltrúi UMFÍ á aðalfundinum og afhenti meðal annars viðurkenningar.

Fólk gat bæði mætt á fundinn sjálfan og var honum skipt upp í sóttvarnarhólf. Fundurinn var jafnframt sendur út á YouTube-rás Keflavíkur.

 

Gullmerkin

Bjarney sat í stjórn sunddeildar Keflavíkur í fimm ár og síðan í aðalstjórn í 17 ár og sex ár sem ritari. Bjarney sat í stjórn Sundsambands Íslands í fimm ár og gjaldkeri öll árin. Hún sat líka í stjórn Íþróttabandalags Reykjanesbæjar  í fimm ár og fjögur sem gjaldkeri. Hún er mikill Keflvíkingur og hefur reynst félaginu afar vel. Bjarney hlaut gullmerki Keflavíkur á aðalfundi félagsins í fyrra. 

Sveinn sat á árum áður í stjórn Knattspyrnufélags Keflavíkur (KFK), Íþróttabandalags Keflavíkur (ÍBK) og var formaður unglingaráðs knattspyrnunnar. Sveinn er mikill Keflvíkingur og hefur reynst félaginu afar vel. Sveinn hefur jafnframt setið í aðalstjórn Keflavíkur í tuttugu ár.

 

Starfsmerkin

Hilmar Örn Jónasson sem hlaut starfsmerki UMFÍ hefur starfað innan sunddeildar Keflavíkur í 10 ár, þar af verið formaður sunddeildarinnar í sex ár. Hilmar situr í stjórn Sundsambands Íslands og hefur verið þar í sex ár. Hann er mikill Keflvíkingur og hefur reynst sunddeildinni vel.

Guðný hefur starfað innan sunddeildar Keflavíkur og er með tíu ára stjórnarsetu í deildinni þar af fimm ár sem ritari. Hún er mikill Keflvíkingur og hefur reynst sunddeildinni vel.

Jónas hefur starfað innan skotdeildar Keflavíkur og er með ellefu ára stjórnarsetu í deildinni og verið varaformaður í öll árin. Hann er mikill Keflvíkingur og hefur reynst skotdeildinni vel.

 

Einar fékk starfsbikarinn

Einar Skaftason hlaut starfsbikar Keflavíkur fyrir árið 2020. UMFÍ gaf Keflavík bikarinn og er hann veittur þeim sem hefur sinnt sjálfboðaliðastarfi á vegum félagsins.

Einar hefur unnið mikið sem sjálfboðaliði fyrir körfuknattleiksdeild Keflavíkur. Hann sat í sex ár í stjórn körfuknattleiksdeildar og er ávallt boðin og búinn og að koma og leggja deildinni hjálparhönd. Hann hefur  komið að undirbúningi leikja í körfunni verið á ritaraborði, stjórna tónlistinni, uppsetningu á skiltum og verið á kústinum eða rétta sagt tekið þátt í öllu sem við kemur körfuknattleiksleik. Hann hefur líka verið til taks fyrir KKÍ þegar landsleikir eru á dagskránni.

Hér að neðan má sjá Einar Skaftason ásamt Einari Haraldssyni, formanni og framkvæmdastjóra Keflavíkur.