Bjarney ráðin yfirþjálfari Íþróttaskóla HSV
„Héraðssambandið Vestfirðinga hefur verið að gera frábæra hluti og uppbyggingin í íþróttastarfinu er góð. Það heillaði mig. Þetta er virkilega spennandi starf, sérstaklega þar sem ég verð bæði í þjálfun og skipulagningu þess,“ segir Bjarney Gunnarsdóttir, sem hefur verið ráðin yfirþjálfari Íþróttaskóla HSV.
Bjarney er íþróttakennari með MS-gráðu í íþrótta- og heilsufræðum frá Háskóla Íslands og hefur lokið diplómanámi í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum.
Bjarney er ættuð að vestan í báða leggi og fetar hún í fótspor móðurafa síns, Péturs Sigurðssonar Vestrapúka, sem sinnti íþróttamálum á Ísafirði af miklum dugnaði á árum áður.
En mega Vestfirðingar gera ráð fyrir að sjá mikla breytingu á starfinu?
„Ég ætla að byrja á því að kynna mér starfið í maí en geri ekki ráð fyrir miklum breytingum. Ég vil frekar bjóða upp á nýjungar og er hrifin af fjölbreytni,“ segir Bjarney. Hún spilaði og þjálfaði fótbolta í mörg ár, spilaði með HK/Víkingi, þjálfaði í íþróttaskóla Víkings og almenningsíþróttadeild félagsins. Hún segist í seinni tíð hafa heillast af almenningsíþróttum, sundi, skokki og kjósi nú fjölbreyttari greinar á borð við hjólreiðar, rathlaupum og ýmsum leikjum þar sem hreyfing er í forgrunni.
Bjarney tekur við starfinu í maí og fylgir fjölskyldan á eftir í ágúst.