Bjarni segir nýtt frumvarp bæta umhverfi almannaheillafélaga
„Ég hef miklar væntingar til málsins og sé fyrir mér að það geti stórbætt umhverfi almannaheillastarfsemi. Bæði kemur það sé vel fyrir félögin sjálf en ekki síður fyrir einstaklinga, sem geta með þessu ráðstafað stærri hluta tekna sinna til góðra málefna að eigin vali án milligöngu ríkisins,‟ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um frumvarp sem hann hefur nýlega mælt fyrir á Alþingi um framlög einstaklinga og atvinnurekenda til almannaheillastarfsemi, þar á meðal íþróttafélaga.
Stór skref fram á við
Frumvarpið hefur verið í umsagnarferli. UMFÍ sendi inn umsögn um frumvarpið og lýsir yfir mikilli ánægju með það. Í umsögninni segir að með frumvarpinu eru stigin stór skref fram ávið í málefnum félaga í þriðja geiranum, bæði hvað snertir skattalegt hagræði sem hvata til að gera betur og til að fá til starfa sjálfboðaliða hjá öflugum félagasamtökum.
Frumvarpið er nú til meðferðar inni í þinginu og á Bjarni von á því að það verði afgreitt upp úr áramótum.
„Þetta er stjórnarfrumvarp og ég held að flestir þingmenn sjái hversu jákvæðar og mikilvægar breytingarnar verða fyrir samfélagið allt. Ég á ekki von á öðru en að um frumvarpið verði áfram breið sátt, eðli málsins samkvæmt, og það verði afgreitt sem lög á nýju ári,‟ segir hann.
Takk fyrir okkur!
Bjarni hefur miklar væntingar til frumvarpsins. Að baki því búi mikil vinna.
„Ég sé fyrir mér að það geti stórbætt umhverfi almannaheillastarfsemi. Bæði kemur það sé vel fyrir félögin sjálf en ekki síður fyrir einstaklinga, sem geta með þessu ráðstafað stærri hluta tekna sinna til góðra málefna að eigin vali án milligöngu ríkisins.‟
Hann heldur áfram:
„Með breytingunum styrkjum við ekki bara grundvöll almannaheillastarfsemi heldur sendum líka skýr og verðskulduð skilaboð til þeirra sem að henni standa. Þannig segjum við sem samfélag einfaldlega: Takk fyrir okkur, við kunnum að meta ykkar framlag.‟
Frumvarp um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld almannaheillafélaga