Fara á efnissvæði
20. febrúar 2024

Björg og Birgir taka við af Einari Haraldssyni

Birgir Már Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, og hefur Björg Hafsteinsdóttir tekið við sem formaður félagsins. Þau taka við af Einari Haraldssyni.

Frá þessu var greint á aðalfundi félagsins í gær þegar Einar Haraldsson hélt sinn síðasta aðalfund eftir þrjátíu ár í formannsstólnum. Björg tók við sem formaður á fundinum en Birgir tekur við sem framkvæmdastjóri þegar Einar lætur af störfum 30. apríl.

Birgir var varaformaður Keflavíkur en gaf ekki kost á sér áfram til stjórnarsetu. Björg var meðstjórnandi.

Nokkrar breytingar urðu samhliða þessu í stjórn Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags og samanstendur aðalstjórn nú af fjórum konum og einum karli. Í varastjórn sitja nú þrír karlmenn. 

Fjöldi viðurkenninga var veittur á aðalfundinum. Þar á meðal afhentu þeir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Guðmundur G. Sigurbergsson, gjaldkeri stjórnar UMFÍ, Einari viðurkenningu fyrir störf hans í gegnum tíðina. 

 

Starfsmerki UMFÍ

Starfsmerki UMFÍ hlutu þau Ragnhildur H. Ingólfsdóttir, sem kemur úr unglingaráði knattspyrnudeildar Keflavíkur, Sveinbjörg Sigurðardóttur, sem kemur úr fimleikum, og þær Björk Sveinsdóttir og Björg Hafsteinsdóttir. 

Til viðbótar hlaut Helgi Rafn Guðmundsson silfurheiðursmerki Keflavíkur. Kristján Helgi Jóhannsson starfsbikar Keflavíkur, þær Björg, Jónína Steinunn Helgadóttir og Sveinbjörg Sigurðardóttir fengu silfurmerki fyrir tíu ára stjórnarsetu og Garðar Newman bronsmerki fyrir fimm ára stjórnarsetu.

Hér má sjá nokkrar myndir frá aðalfundinum. Þar er meðal annars Birgir, sem afhenti Einari skemmtilega mynd í tilefni tímamótanna.

 

Skýrsla og ársreikningum Keflavíkur