Fara á efnissvæði
16. júní 2023

Björn og Haukur skoða þjónustumiðstöð UMFÍ

„Það var virkilega gaman að koma í heimsókn í þjónustumiðstöðina. Hún er notaleg og greinilegt að nostrað hefur verið við hönnunina,“ segir Björn B. Jónsson, fyrrverandi formaður UMFÍ. Hann heimsótti þjónustumiðstöð UMFÍ á dögunum ásamt Hauki Valtýssyni, fyrrverandi formanni. Saman skoðuðu þeir sig um og ræddu við þau Jóhann Steinar Ingimundarson, formann UMFÍ, og Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ, um starfið og mörg verkefni UMFÍ.

Þjónustumiðstöð UMFÍ opnaði á þriðju hæð íþróttamiðstöðvarinnar við Engjaveg í Reykjavík í byrjun árs og er hún staðsett í gömlu ráðstefnusölum hússins. Flutningurinn markaði tímamót því ÍSÍ, sem er á hæðinni fyrir ofan, og UMFÍ eru nú í sama húsinu í fyrsta sinn. Í íþróttamiðstöðinni eru líka tveir sambandsaðilar UMFÍ, Íþróttabandalag Reykjavíkur og Ungmennasamband Kjalarnesþings, ásamt skrifstofum fjölmargra sérsambanda.

 

 

Á sama tíma og gömlu fundarrýmum var breytt í þjónustumiðstöð var ráðist í heilmiklar framkvæmdir á öðru rými þriðju hæðarinnar.

Björn sat í stjórn UMFÍ í tólf ár, þar af sex varaformaður og jafnmörg sem formaður. Hann hætti á sambandsþingi UMFÍ árið 2007. Haukur sat í stjórn UMFÍ í áratug, þar af sem formaður í sex ár eða þar til hann ákvað að gefa ekki kost á sér á sambandsþingi árið 2021. Jóhann Steinar tók við formennsku af Hauki.

Björn og Haukur skoðuðu þjónustumiðstöðina nýju, meðal annars gamlar myndir sem prýða veggi hennar af íþróttaviðburðum UMFÍ ásamt því að ræða um starfsemi UMFÍ, svo sem Skólabúðir UMFÍ á Reykjum.

„Það er margt áhugavert að gerast hjá UMFÍ og mjög spennandi að fylgjast með því,“ segir Björn.

 

Fleiri myndir úr heimsókninni