Bjuggu til áfanga um störf sjálfboðaliða

„Þessi fyrsta kennslustund gekk mjög vel og það var mjög gaman að hitta nemendurna,“ segir Álfheiður Sverrisdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vesturlandi. Hún og Heiðar Mar Björnsson, samstarfsfélagi hennar, hófu í síðustu viku kennslu í áfanga um störf sjálfboðaliða við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA).
Þetta er nýjung í skólastarfi. Áfanginn er til tveggja eininga, bæði bóklegur og verklegur.
Svæðisfulltrúar ÍSÍ og UMFÍ eru hugmyndasmiðirnir að þessu fyrirkomulagi og mótuðu Álfheiður og Heiðar námið í samstarfi við Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og FVA. ÍA fékk styrk fyrir verkefninu úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ í seinni úthlutun úr sjóðnum 2024. Í skoðun er að bjóða upp á sambærilega áfanga í fleiri skólum.
Fleiri skólar hafa áhuga
Þau Álfheiður og Heiðar stefndu upphaflega á að setja áfangann á dagskrá næsta skólaári en þau luku við gerð hans í desember. Jákvæðnin var hins vegar svo mikil innan veggja skólans að ákveðið var að auglýsa hann strax og stefna á að hefja námið á vorönn. Af þeim sökum var ekki ljóst hvort nógu margir nemendur myndu skrá sig til að geta kennt áfangann, enda nemendur búnir að velja sínar einingar á þessum tíma fyrir vorönnina. Það gekk hinsvegar eftir og var fyrsti kennsludagur í vikunni.
Álfheiður segir markmiðið með náminu að fræða fólk um gildi sjálfboðaliðastarfs og ávinning þess.
„Við viljum aðstoða við að efla sjálfboðaliðahugsunina hjá ungmennunum okkar og í leiðinni létta undir með íþróttahéruðum og félögum með því að fjölga sjálfboðaliðum,“ segir Álfheiður Sverrisdóttir.
Álfheiður segir hugmyndina um áfangann hafa komið upp þegar starfsfólk svæðastöðvanna vann að aðgerðaáætlun fyrir landsvæðin í haust, en talsvert samtal og samstarf átti sér stað á milli svæða í aðdragandanum. Nú þegar hafi þeirra helsta samstarfsteymi í verkefninu, starfsfólk svæðisstöðvarinnar á Suðurnesjum, kynnt svipaða hugmynd fyrir stjórnendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS). Stefnt er að því að Álfheiður og Heiðar heimsæki samstarfsfólk sitt á Norðurlandi eystra í febrúar og kynni þar verkefnið fyrir starfsfólki framhaldsskólanna á því svæði.
Brú á milli skólakerfisins og íþróttahreyfingar
Álfheiður segir að með áfanganum verði til dýrmæt brú frá íþróttahreyfingunni inn í skólakerfið. Með þessum áfanga skapist meðal annars tækifæri fyrir ungmenni sem hafa ekki fundið sína fjöl eða dottið út úr íþróttastarfinu en vilji leita til baka með einhverjum hætti, en áfanginn stendur öllum nemendum opinn sem valfag.
Nú þegar er kenndur áfangi í FVA sem tengist farsældarlögunum og er þessi nýi áfangi byggður upp á samskonar máta. Bókleg kennsla í þessum áföngum fer fram seinni part dags í beinu framhaldi af skóladeginum en verklegi þátturinn þegar á þarf að halda og á tímum sem henta nemendunum og eru þeir því báðir utan hefðbundinnar stundatöflu.
Sjálfboðaliðstarf í reynslubankann
Samkvæmt námskeiðslýsingu fá nemendur fræðslu um rekstur og stjórnun íþróttahreyfingarinnar og hvaða hlutverki sjálfboðaliðar gegna. Þau læra um inngildingarhugsun og fá fræðslu um hvað sjálfboðaliðaþátttaka gerir fyrir einstaklinginn.
„Við stefnum á að fá einhvern úr sjálfboðaliðaumhverfinu á Akranesi til að sjá um þetta síðasta erindi, einhvern sem þau þekkja og líta upp til,“ segir Álfheiður. „Við viljum leggja áherslu á að vinna sjálfboðaliða er hagur allra. Þarna gefst einstaklingum tækifæri til að öðlast dýrmæta reynslu, sem getur skipt máli í ferilskrá þegar sótt er um áframhaldandi nám eða störf, auk bættrar félagsfærni og aukins sjálfstrausts samhliða því að láta gott af sér leiða með öllum þeim góðu tilfinningum sem því fylgir. Starf sjálfboðaliða gagnast ekki aðeins þeim sem það þiggja heldur líka sjálfboðaliðanum sjálfum.“
Ekki endalausar sjoppuvaktir
Þau Heiðar og Álfheiður sjá um inngang námskeiðsins, uppbyggingu þess og stýra verkefnaskilum. Aðrir sérfræðingar koma að fræðsluerindum auk þess sem þátttakendur þurfa að skila 30 tímum í sjálfboðaliðastarfi hjá aðildarfélögum ÍA.
„Það er von okkar að í þessum áfanga muni nemendur læra að það er ekki kvöð, kvöl og pína að vera sjálfboðaliði. Þetta eru ekki endalausar sjoppuvaktir í kulda og trekki eða klósettpappírsala í hrönnum. Sjálfboðaliðastarfið er afar fjölbreytt og nauðsynlegt íþróttahreyfingunni. Verkefnin eru margvísleg, svo sem við mótahald, fjölmörg útbreiðsluverkefni, dómgæslu, fjáraflanir og fleira. Við vonumst til að þetta verði dýrmæt reynsla fyrir þátttakendur og nám sem hægt verði að innleiða inn í fleiri framhaldsskóla í framtíðinni,“ segir Álfheiður að lokum.
Allt í Skinfaxa
Viðtalið birtist upphaflega í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að lesa blaðið á umfi.is og líka með því að smella á forsíðu þess hér að neðan. Blaðið er líka aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum víða um land.
Á meðal efnis í blaðinu:
- Fjárhagur íþróttafélaganna
- Segir markaðsmál íþróttafélaga ekki unnin af fagmennsku.
- Vinna sjálfboðaliða var einfaldari áður fyrr
- Leita að höfundum íþróttamerkja
- Sveinn Sampsted: Íþróttahreyfing fyrir okkur öll!
- Sumarbúðir á Reykjum í fyrsta sinn
- Íþróttafélagið Suðri mun blómstra sem deild í Umf. Selfoss
- Börnin læra að takast á við sigra, áföll og að tapa
- ALLIR MEÐ-leikarnir slógu í gegn
- Ungmenni kusu í strætó
- Félagasamtök mega ekki verða einsleit
- Margt er að gerast í íþróttahreyfingunni
- Takk sjálfboðaliðar
- Kenna fólki að vera sjálfboðaliðar
- Tryggja tækifæri fólks til að hreyfa sig
- Mikilvægi þess að huga að góðum samskiptum
- Svipmyndir úr starfi UMFÍ 2024
- Dýrmæt samvinna ÍBA og ÍBR
- Ungmennafélagið mætir þörfum iðkenda
- Sama fyrirkomulag á Vestfjörðum
- Kassasmíði í starfshlaupi UMFÍ