Fara á efnissvæði
01. ágúst 2019

Bjuggu til nýjan völl fyrir strandhandbolta

„Okkur vantaði völl fyrir strandhandbolta og því bjuggum við hann til,“ segir Gísli Már Vilhjálmsson, verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ á Höfn í Hornafirði. Mótið fer fram um helgina og hafa ýmsar nýjungar verið að líta dagsins ljós í bænum sem vantar til að halda mótið. Þar á meðal eru strandblakvellir, völlur fyrir strandhandbolta og lappað upp á eitt og annað.

Strandhandboltavöllurinn er skemmtilega saman settur. Fyrst voru timburbretti lögð til að marka völlinn, torf yfir. Miðjusvæðið var síðan fyllt af svörtum sandi. Völlurinn er að líta dagsins ljós og á enn eftir að setja mörkin upp.

Þótt völlurinn sé ekki fullbúinn kom það ekki í veg fyrir að þær Karen Hulda, Birta Ósk, Arney og Elín Ósk gætu skemmt sér á fyrsta degi Unglingalandsmóts UMFÍ. Enda er blíðskaparveður, léttskýjað, stilla og 11 gráðu hiti.

„Þetta er frábært keppnisveður, milt og gott enda ekki gott að keppa í of mikilli sól,“ segir Gísli.

Á myndunum sem fylgja með má sjá mótsgesti sem hafa komið í bæinn, hafa skráð sig og eru að leika sér. Sérstakur myndaveggur hefur verið settur upp í mótsstjórn þar sem þær Emilía og Dagrún Inga brugðu á leik.