Fara á efnissvæði
12. febrúar 2018

Blakið slær í gegn á Hvammstanga

Blakdeild Ungmennafélagsins Kormáks fékk í nóvember úthlutað 100.000 króna styrk til uppbyggingar blakíþróttar á sambandssvæði Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga (USVH).

„Flestir mæta nú orðið í blak í hópíþróttum á Hvammstanga. Körfubolti er að gera það gott en blakið er í fyrsta sæti. Ástæðan fyrir því er að það er svo skemmtilegt og búið er að byggja greinina hægt og rólega upp í sveitarfélaginu með stuðningi Fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ,“ segir Sveinbjörg Grétarsdóttir. Hún stundar blak hjá blakdeild Kormáks á Hvammstanga.

Sveinbjörg segir blak hafa verið stundað á Hvammstanga þegar hún var yngri. Ástundun hafi hins vegar ekki verið mikil fyrr en hestakonan Vigdís Gunnarsdóttir flutti með manni sínum að Sindrastöðum árið 2011. Þar reka þau eitt myndarlegasta hrossabú landsins. 

Vigdís kom frá Grundarfirði og hafði æft blak þar. Þegar norður var komið ýtti hún undir áhuga sveitunga sinna á íþróttinni og sá um æfingar. Nú æfa um 30 manns blak, frá 15 ára aldri og upp að sextugu, á Hvammstanga. Karlaliðið heitir Húnar og kvennaliðið Birnurnar.

Blakdeild Kormáks fékk í októberlok síðastliðnum styrk úr fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ upp á 100 þúsund krónur til uppbyggingar greinarinnar. Félagið hefur áður fengið styrki til uppbyggingar blaks á Hvammstanga. Sveinbjörg segir styrkina nýtast til að halda helgarnámskeið í blaki. Í fyrra og nú í október hafi Hilmar Sigurjónsson, þjálfari blakliðs Hamars í Hveragerði, komið norður til að þjálfa áhugasama Húnvetninga um heila helgi. Blakdeildin leigði íþróttahúsið á Hvammstanga og nýtti styrkinn til að greiða fyrir mat, gistingu og laun Hilmars. Námskeiðsgjöld iðkenda bættust við styrkinn.

Sveinbjörg segir frábært að geta sótt um styrk hjá UMFÍ svo að félagið geti fengið þjálfara og styrkt uppbyggingu greinarinnar. Nú er svo komið á Hvammstanga að blakdeild
Kormáks hefur alltaf sent lið á öldungamót í blaki. Tvö lið fóru líka á Íslandsmótið í blaki. Hilmar skipuleggur æfingar liðanna og heldur utan um félagið.

 

Opið fyrir umsóknir í Fræðslu- og verkefnasjóð

Nú er búið að opna fyrir umsóknir í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ. Umsóknir á þar til gerðu eyðublaði þurfa að berast fyrir 1. apríl næstkomandi en úthlutun úr sjóðnum fer fram sem næst 1. maí. 

UMFÍ hvetur sérstaklega til þess að sótt verði um styrki vegna verkefna í samræmi við stefnu UMFÍ en þar er áherslan á ungt fólk, jaðarhópa og eldra fólk.

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ hefur þann tilgang að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi.

 

Smelltu hér til að sækja um