Fara á efnissvæði
20. mars 2018

Blönduð lið fatlaðra og ófatlaðra í blaki opna mikla möguleika

„Fólk sem hefur áhuga á íþróttaþjálfun barna og vill heyra hvernig besti blakmaður í heimi nær að halda börnum í íþróttum og hvetja þau áfram ætti að koma til Húsavíkur um helgina og sjá hvernig Vladimir Grbic vinnur,“ segir Anna Karólína Vilhjálmsdóttir hjá Íþróttasambandi fatlaðra.

Vladimir Grbic er blakhetja frá Serbíu, Ólympíumeistari í blaki og sendiherra Special Olympics í sameinuðu blakliði fatlaðra og ófatlaðra (e. unified volleyball). Hann er í frægðarhöll blaksins og lýstir Anna honum sem Péle-bakheimsins. 

Grbic er málsvari þess að fatlaðir og ófatlaðir spili saman í blakliði. Í tengslum við heimsókn hans hingað til lands var sett saman blaklið fatlaðra og ófatlaðra undir merkjum Völsungs á Húsavík. Liðið, sem samanstendur af þremur fötluðum og þremur ófötluðum, hafði aðeins æft þrisvar þegar það spurðist út og fékk það boð um að koma út til Serbíu.

Anna Karólína segir blönduð lið fatlaðra og ófatlaðra frábær og veita mörg ný tækifæri. „Í blönduðu liðunum er ekki horft á árangur og afrek heldur aðra þætti eins og mætingu og liðsanda,“ segir hún og bendir á hversu góður UMFÍ-andi ríkir í blönduðum liðum á Special Olympics.

 

Blakhetja kemur

Vladimir Gribic er að koma til landsins til að halda námskeið í þjálfun í blaki á Húsavík um helgina, þ.e. dagana 23. – 25. mars. Yfirskrift námskeiðsins er Frá grunni til gulls.

Föstudagskvöldið 23. mars verður fræðilegur fyrirlestur fyrir þjálfara, íþróttakennara og áhugasama. Fyrirlesturinn á ekki síður við þá sem koma að öðrum íþróttagreinum.

Blakbúðirnar hefjast svo á laugardaginn 24. mars. Þann dag verður áhersla á efni tengt fyrirlestrinum kvöldið áður og á erindi við flestar greinar íþrótta. Verklegar æfingar verða skipulagðar út frá fjölda barna og ungmenna í blakbúðunum. Á sunnudeginum verður áhersla lögð á blakíþróttina.

Verkefnið er því fyrir blakiðkendur á aldrinum 10 - 18 ára á laugardegi og sunnudegi. Fyrir þjálfara, íþróttakennara og áhugasama frá föstudagskvöldi til sunnudags.

Búið er að lækka verðið fyrir þátttöku á viðburðinum á Húsavík um helgina svo sem flestir geti verið með.

 

Meira um blakbúðirnar og Grbic