Fara á efnissvæði
30. maí 2024

Blue Car Rental bakhjarl Landsmóts UMFÍ 50+

„Við höfum alltaf lagt okkur fram um að styrkja íþróttafélög og viðburði í nærsamfélaginu. Styrkur við mótið markar tímamót því þetta er í fyrsta skiptið sem við styrkjum viðburð í Vogunum,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental. 

Hann skrifaði á dögunum fyrir hönd bílaleigunnar undir samning sem styrktaraðili Landsmóts UMFÍ 50+, sem verður í Vogum á Vatnsleysuströnd dagana 6. – 9. júní.  Mótið hefur verið haldið árlega um allt land og aldrei á sama stað. Mótið er nú í fyrsta sinn haldið í Vogum. 

Undir samninginn skrifaði Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ.

 

Strandarhlaup Blue 

Á meðal viðburða á mótinu er Strandarhlaup Blue, sem verður ein af opnum greinum mótsins. Tíu ár eru síðan blásið var í fyrsta sprettinn í því. Allir sem vilja geta tekið þátt í Strandarhlaupi Blue. 
Keppt verður í tveimur aldursflokkum, 49 ára og yngri og 50 ára og eldri. Hægt er að velja á milli tveggja vegalengda, fimm og tíu kílómetra hlaupa.  

 

Góðgerðarfest

Blue Car Rental hefur styrkt íþrótta- og góðgerðarfélög víða á Suðurnesjum í gegnum tíðina og haldið í nokkur ár svokallað Góðgerðarfest þar sem safnað er styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu og því skipt á milli góðgerðarfélaga á Suðurnesjum. 

Á meðal þeirra sem hafa hlotið styrk eftir Góðgerðarfestið er Minningarsjóður Ölla, sem styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því, yfirleitt vegna bágrar fjárhagsstöðu forráðamanna. Sjóðurinn borgar meðal annars æfingagjöld, æfingabúnað, keppins- og æfingaferðir. Öspin, sem er miðlæg sérdeild á vegum Reykjanesbæjar, hefur sömuleiðis hlotið styrk eftir festið. 

 

Þetta er Landsmót UMFÍ 50+

Landsmót UMFÍ 50+ stendur yfir frá 6. – 9. júní. Boðið er upp á keppni í 20 íþróttagreinum og fjölmörgum öðrum greinum sem mótsgestir geta prófað og keppt í við yngri þátttakendur. Heilmikil afþreying og skemmtun verður í boði á sama tíma, þrennir heimatónleikar, matar- og skemmtikvöld og ýmislegt fleira. 

Fólk getur kynnt allt sem í boði er á www.umfi.is.

 

Á myndinni hér að ofan eru þau Héðinn Ólafsson, vallarstjóri hjá Héðni, Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, Þorsteinn Þorsteinsson, Ólöf Steinunn Lárusdóttir og Davíð Örn Óskarsson frá Blue Car Rental. Lengst til hægri er Ómar Bragi frá UMFÍ.