Fara á efnissvæði
26. apríl 2025

Boccíamót er góð upphitun fyrir Landsmót UMFÍ 50+

„Dymbilmótið í boccía var góð upphitun fyrir alla,“ að sögn Flemming Jessen, fyrrverandi kennara, skólastjóra og forvígismanns í íþróttum aldraðra. Hann hefur lengi staðið fyrir ýmsum viðburðum fyrir eldra íþróttafólk og var meðal annars í stjórn Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA). Félagið tók ýmsar greinar upp á sína arma, greinar sem síðar urðu meðal þeirra vinsælustu á Landsmóti UMFÍ 50+. 

Flemming hefur einmitt lengi verið meðal aðalfólksins í skipulagningu Landsmóts UMFÍ 50+ og verið oft  verkefnastjóri og sérgreinastjóri s. s. í boccía, ringó og mörgum fleiri greinum.

Flemming segir eldri borgar á Vesturlandi æfa og keppa ötullega í boccía, ringó og pútti nánast allt árið. Það eigi við fólk víðar og telur upp Mosfellsbæ, Akranes, Borgarbyggð, Snæfellsbæ, Grundarfjörð, Stykkishólm, Dalina og fólk í Húnaþingi-vestra.

Flemming er jafnframt formaður Félags eldri borgara í Borgarfjarðardölum. Það vinnur náið með Félagi eldri borgara í Borgarnesi og Akranesi. Flemming stjórnaði  Dymbilmóti íþróttanefndar eldri borgara í Borgarbyggð, sem fór fram mánudaginn 14. apríl síðastliðinn.   

 

Dymbilmót í fyrsta sinn

Þetta var í fyrsta sinn sem Dymbilmót Borgarbyggðar var haldið.      

Mótið fór fram í íþróttahúsinu í Borgarnesi og tóku sextán lið frá fjórum félögum þátt í mótinu. Þau voru frá Húnaþingi-vestra, Mosfellsbæ, Akranesi og úr Borgarbyggð. Keppt var í fjórum fjögurra liða riðlum, alls 24 leikir. 

Sigurvegarar riðlana kepptu svo í milliriðli og síðasta léku sigurvegara þeirra til úrslita. Alls því leiknir 28 spennandi leikir. Með góðu framtaki keppenda og annarra er að mótinu komu stóðust allar tímasetningar og vel það. 

Flemming vonar að Dymbilmótið haldi áfram: 

„Vonandi er það komið til að vera. Ekkert gerist nema með samstilltu átaki. Við þökkum öllum þeim sem lögðu hönd á plóg fyrir samstarf og samvinnu. Þá voru starfsmenn íþróttahúsins sérstakalega liprir og hjálplegir og þeim ber að þakka,“ segir Flemming og bendir á að næstu mót í boccía eru á laugardag á Hvolsvelli, Akureyri 17. Maí,  Vesturlandsmót sem fram fer í Mosfellsbæ 30. maí og svo Landsmót UMFÍ 50 + sem fram fer í Fjallabyggð 27. – 29. júní.

 

Úrslit úr Dymbilmóti Borgarfjarðar

 
1.    FEBAN 6 Akranesi: Baldur Magnússon, Aðalsteinn Aðalsteinsson og Bragi Sigurdórsson.
2.    FEBAN 2 Akranesi: Jóhannes Hreggviðsson, Svavar Garðarsson og Árni  Einarsson.
3.    Hún-Vest 2 Hvammstanga: Guðmundur Haukur Sigurðsson, Ragnheiður Jóhannsdóttir og  Agnar E. Jónsson.
4.    FEBAN 1 Akranesi: Björg Loftsdóttir, Katrín Baldursdóttir og Rakel Kristbjörnsdóttir.