Boðað til sambandsráðsfundar UMFÍ 13. janúar 2018
Á 50. sambandsþingi UMFÍ 14. - 15. október s.l. var samþykkt tillaga með miklum meirihluta greiddra atkvæða þess efnis að stjórn UMFÍ skoði að halda aukaþing. Eina málið á dagskrá aukaþings yrði umfjöllun um aðild íþróttabandalaga að UMFÍ.
Tillagan var tekin fyrir á fundi stjórnar UMFÍ 19. október s.l. Stjórn UMFÍ leitaði eftir álitum nokkurra lögfræðinga um lögmæti þess að halda aukaþing og hvort það væri samkvæmt lögum UMFÍ. Niðurstaða stjórnar er að leiki vafi á heimild stjórnar til þess að boða aukaþing. Þar af leiðir myndi það sama gilda um ávarðanir sem teknar yrðu á slíku þingi.
Stjórn UMFÍ telur mikilvægt að svara ákalli hreyfingarinnar um áframhaldandi samtal um aðild íþróttabandalaga að UMFÍ sbr. tillöguna sem vísað var til stjórnar. Stjórn UMFÍ hefur því í samræmi við það samþykkt að í stað aukaþings verði boðað til sambandsráðsfundar. Lögmæti slíks fundar er óvéfengjanlegt.
Meirihluti stjórnar UMFÍ telur að innganga íþróttabandalaga í landssamband ungmennafélaga (UMFÍ) verði skref fram á við fyrir hreyfinguna. Á sama hátt telur meirihluti stjórnar að útfrá þeim forsendum sem lagðar hafi verið til grundvallar að undanförnu þá muni þær ekki hafa óhagstæð áhrif á skiptingu fjármuna frá lottó til núverandi sambandsaðila, né hafa áhrif á fulltrúafjölda smærri sambandsaðila á þingi.
Stefnt er að boðun sambandsráðsfundar UMFÍ þann 13. janúar 2018, samkvæmt lögum UMFÍ.
Nánari upplýsingar um staðsetningu og tímasetningu verða send út með formlegu fundarboði.