Fara á efnissvæði
13. nóvember 2020

Börn og ungmenni fá að stunda íþróttir á nýjan leik í næstu viku

Fagnaðarefni að íþróttastarf geti hafist að einhverju leyti í næstu viku. Börn á leikskóla og grunnskólaaldri geta hafið æfingar með og án snertingar. 


Íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum verður heimilt á ný bæði inni og úti miðvikudaginn 18. nóvember, samkvæmt breytingum á samkomutakmörkunum.

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis sem fela í sér varfærnar tilslakanir á gildandi samkomutakmörkunum.

 

Hefurðu spurningar?

Við vekjum sérstaka athygli á því að í minnisblaði sóttvarnalæknis sem hér fylgir að neðan segir að íþróttastarf barna og ungmenna verði leyft en án áhorfenda. 

Íþróttahreyfingin hefur þegar sent spurningar til stjórnvalda. Ef stjórnendur íþrótta- og ungmennafélaga hafa frekari spurningar þá má senda þær á umfi@umfi.is.
 

Miðað við reglur í skólahaldi

Æfingar, íþróttastarf, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt jafnt inni og úti. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman.

Að öðru leyti verða fjöldamörk aukin í 25 manns í framhaldsskólum. Hægt verður að hefja ýmsa þjónustustarfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nándar. Almennar fjöldatakmarkanir miðast þó eftir sem áður við 10 manns. 

Tekið er fram í minnisblaði sóttvarnalæknis að næstu tilslakanir verði gerðar 2. desember árið 2020.


Breytingarnar sem eru kynntar nú taka gildi miðvikudaginn 18. nóvember og eru eftirfarandi:

  • Æfingar, íþróttastarf, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt jafnt inni og úti. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman.
  • Starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar milli fólks verður leyfð með þeim skilyrðum að notast sé við andlitsgrímur. Þetta á við um s.s. hárgreiðslustofur, nuddstofur, öku- og flugkennslu og sambærilega starfsemi. Hámarksfjöldi viðskiptavina á sama tíma er 10 manns.
  • Í skólastarfi á framhaldsskólastigi mega nemendur og starfsmenn vera að hámarki 25 í hverju rými í stað 10 áður en ber að nota andlitsgrímur sé ekki unnt að halda 2 metra fjarlægð.
  • Veitt er undanþágu frá grímuskyldu þeim sem ekki geta notað grímur, t.d. af heilsufarsástæðum eða ef viðkomandi skortir þroska eða skilning til að bera grímu. Þeir sem fengið hafa COVID-19 eru einnig undanþegnir grímuskyldu geti þeir sýnt gilt vottorð þess efnis.
 

Minnisblað sóttvarnalæknis 

Viðbót sóttvarnalæknis við minnisblaðið