Fara á efnissvæði
21. mars 2025

Börn tóku skóflustungu að íþróttahúsi í Borgarnesi

„Við vitum það öll að í gamla daga snerist lífið meira um það að fara í vinnuna, kaupa í matinn og fara heim. En í dag vitum við það að lífsgæði okkar felast í því að byggja upp samfélag sem býður fólki upp á góða íþróttaaðstöðu,“ sagði Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð, í tilefni af skóflustungu nýs fjölnota íþróttahúss við Skallagrímsvöll í Borgarnesi í gær.

Mikill fjöldi barna víða að úr Borgarbyggð tók þátt í viðburðinum ásamt Stefáni Brodda Guðjónssyni, sveitarstjóra Borgarbyggðar, og sveitarstjórn. 

Guðveig sagði fólk vilja byggja sér framtíð á stað þar sem gott er að búa í.

„Fólk velur að flytja á staði þar sem eru góðir innviðir til þess að ala upp fjölskyldur. Þetta er það sem skiptir mestu máli í dag,“ sagði hún og bað síðan öll sem mætt voru á svæðið að fara út á túnið og taka skóflustungur að nýju íþróttahúsi. Framkvæmdir við húsið hefjast á næstu vikum. 

Nýja húsið verður byggt á íþróttasvæðinu í Borgarnesi þar sem sundlaug og íþróttahús eru. Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, var viðstaddur viðburðinn og gaf Borgfirðingum fótbolta í tilefni dagsins en íþróttahúsið en knattspyrna verður í aðalhlutverki í nýja íþróttahúsinu. Þar voru líka fulltrúar frá UMFÍ og svæðisfulltrúar íþróttahreyfingarinnar á Vesturlandi.

Eins og myndirnar bera með sér létu viðstaddir ekki rigninguna og goluna trufla sig við verkið og klæddu sig eftir veðri.