Börnin læra að takast á við sigra og áföll
Stór hópur starfsfólks svæðisstöðva íþróttahéraðanna fór ásamt fleirum í fræðsluferð til frænda okkar í Danmörku í lok nóvember í fyrra. Þar fékk hópurinn dýrmæta fræðslu um íþróttir iðkenda með fötlun.
„Danir eru svo langt á undan okkur í öllu saman. Það sem ég lærði eftir ferðina var að leyfa foreldrum ekki að sitja inni á æfingum barnanna,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH). Hún var á meðal fulltrúa íþróttahreyfingar sem fóru til Bröndby í Danmörku seint í nóvember til að efla þekkingu og samstarf þeirra sem tengjast svæðisstöðvum íþróttahéraðanna og kynna sér íþróttir fatlaðra.
Hópurinn gisti í Idrættens Hus í Brøndby, en þar eru höfuðstöðvar Íþróttasambands Danmerkur (DIF) og Íþróttasambands fatlaðra þar í landi, sem er einn af sambandsaðilum DIF. Søren Jul Kristensen, framkvæmdastjóri Special Olympics í Danmörku, stýrði fundum. Hann kynnti ferðalangana fyrir fyrirkomulagi íþrótta fatlaðra í Danmörku og tók við kynning á ýmsu er við kom þessum málum ytra.
Upp úr nokkrum fyrirlestrum stóð sá er borðtenniskappinn Peter Rosenmeier hélt um verkefnin Tumbling Stars og Rising Stars. Þetta eru tveir angar íþróttaiðkenda með fötlun. Tumbling Stars er hugsað fyrir börn á aldrinum þriggja til sex ára með ýmsar fatlanir sem leika sér í greinum sem fela í sér að rúlla hlutum, kasta, grípa og hlaupa. Hópurinn innan Rising Stars eru börn og ungmenni á aldrinum 7 til 15 ára sem fá tækifæri til þess einu sinni í viku að æfa borðtennis, skotfimi og sund. Æfingarnar eru iðkendum að kostnaðarlausu.
Foreldrarnir segja: En...
Peter fjallaði um tilurð verkefnanna og fjármögnun, sem hefur tekið miklum breytingum frá því þeim var ýtt úr vör fyrir um sjö árum. Peter sagði þetta hafa verið heilmikla áskorun og lærdómsríkt ferli. Æfingar byrjuðu með átta börnum en erfiðlega gekk að finna iðkendur.
„Þótt við værum búin að tryggja fjármagn og húsnæði þá fundum við ekki börnin. Að lokum fundum við þau. Foreldrarnir hringdu samt alltaf í þjálfara til að segja þeim að þau vildu æfa hitt og þetta. En... síðan fara þau að lýsa fötluninni og eru hrædd um að börnin detti og meiði sig eða líki ekki hin eða þessi tónlist,“ sagði hann og benti á að foreldrar barna með fötlun væru hálfgert vandamál. Þau vildu börn- um sínum afar vel en við liggi að þau ofvernd- uðu þau,“ sagði hann og benti réttilega á að efasemdir foreldra eigi sér oft skýringar. Börnin hafi farið á æfingar áður hjá félögum með börn- um sem ekki eru með fötlun. Þau hafi orðið sár og vilji foreldrarnir koma í veg fyrir að börnin verði fyrir særindum á ný. Peter Rosenmeier og ungur iðkandi bregða á leik.
„Ég þarf að sannfæra foreldrana um að þetta verði öðruvísi hjá okkur og byrja á því að funda með þeim klukkustund fyrir fyrstu æfingu barn- anna,“ sagði hann en lýsti því jafnframt að helsta áskorun foreldranna væri að skilja börnin eftir á æfingum. Hann benti líka á að þótt markmiðið með æfingunum sé að ala upp keppendur í íþróttagreinum þá væri endanlegt markmið að þjálfa fólk með fötlun til þess að taka þátt í samfélaginu.
„Börnin þurfa að læra að lifa í heimi þar sem þau eru öðruvísi. Við höfum séð að hér eflist sjálfstraust þeirra. Þau læra að takast á við tap og sigra og alls konar áföll. Og að vera langt frá foreldrum sínum. Þau pluma sig og foreldrarnir eru endalaust að þakka okkur fyrir starfið,“ sagði Peter Rosmeier en þrotlaus vinna hópsins sem að þjálfuninni stendur hefur skilað sér í fjölgun iðkenda. Þeir eru nú orðnir rúmlega 120.
Að fyrirlestri loknum fylgdist hópurinn með æfingu iðkenda innan raða Rising Stars.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni. Fjallað er um ferðina í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er hægt að lesa allt á umfi.is.