Fara á efnissvæði
25. júní 2022

Bráðabani skar úr um úrslit í pútti

„Stemningin er rosalega fín og við erum mjög heppin með veður,‟ segir Flemming Jessen, sérgreinastjóri í pútti þar sem hann stóð á golfvellinum í Borgarnesi og var að ganga frá eftir keppni dagsins á Landsmóti UMFÍ 50+.

Um 50 þátttakendur voru skráðir til leiks í pútti og þurfti bráðabana til að skera úr um þrjú efstu sætin í kvennaflokki í pútti. Úrslit í flokki karla voru hins vegar nokkuð skýr. Flemming segir þetta algengt í pútti að bráðabani komi til. Keppt var annars vegar um fyrstu tvö sætin í bráðabana og hins vegar um sæti 3 og 4.  

Flemming hefur nóg að gera á Landsmóti UMFÍ 50+. Hann var sérgreinastjóri í boccía í gær og aftur í pútti í dag. Flemming kom líka að keppni í ringói í gær og bridge í dag. Bridge-ið er fjölmenn íþrótt sem staðið hefur yfir í allan dag í Hjálmakletti, menningarhúsinu í Borgarnesi.

Boccía er líka iðulega stór grein á Landsmóti UMFÍ 50+ eins og púttið en þar voru 16 fjögurra manna lið skráð til leiks. Sjö lið kepptu í ringói og fjórtán sveitir í bridge.

Úrslit úr öllum greinum mótsins verða birt á eftir helgi á mótasíðu Landsmóts UMFÍ 50+

 

Um Landsmót UMFÍ 50+

Landsmót UMFÍ 50+ er haldið í Borgarnesi um helgina. Þar er keppt í fjölda greina fyrir fimmtíu ára og eldri. Jafnframt er líka opið í greinar fyrir þátttakendur á öllum aldri. Mótið hófst með fjölmennri keppni í boccía á föstudag, skák, ringó og götuhlaupi sem allir sem vildu gátu tekið þátt. Í dag hófst dagurinn með keppni í bridge, sundi og heldur svo áfram með keppni í frjálsum, golfi, knattspyrnu og fleiri greinum. Mótinu líkur á morgun.

Þetta er tíunda skiptið sem Landsmót UMFÍ 50+ er haldið. Fyrsta mótið var haldið á Hvammstanga árið 2011 og hefur síðustu tveimur mótum verið fresta vegna heimsfaraldurs.

 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá keppni dagsins í pútti og frjálsum í dag.