Fara á efnissvæði
03. júní 2020

Brennibolti hápunktur Hreyfivikunnar á Djúpavogi

UMFÍ stendur fyrir Hreyfiviku í lok maí á hverju ári.  Hreyfivikan er hluti af evrópskri lýðheilsuherferð sem er undir nafniu Now We Move.  Markmið verkefnisins er að fá fleiri til að hreyfa sig reglulega og finna sína uppáhaldshreyfingu og stunda hana reglulega eða að minnsta kosti í 30 mínútur daglega. 

Ungmennafélagið Neisti á Djúpavogi tók að sér hlutverk boðbera hreyfingar með því að bjóða upp á atburði tengda lýðheilsu og íþróttum í nærsamfélaginu.  Þátttakan var mjög góð en boðið var upp á fjölbreytta hreyfingu sem allir gátu tekið þátt í. 

Fjölskyldu-/Vinaleikur var settur í gang sem gekk út að fara á fyrirfram ákveðna staði og taka sjálfsmynd af sér og tveimur öðrum.  Myndin var svo birt á samfélagsmiðlinum Instagram undir merkinu #hreyfivikaneista. 

Með því að slá inn merkið er hægt að sjá afrakstur verkefnisins sem er reyndar af skornum skammti en vonandi hendir fólk inn myndum í sumar. 

 

Líf og fjör í Hálsaskógi

Þá var boðið upp á útiþrek í Hálsaskógi.  Gengið var hringur í Hálsaskógi og léttar æfingar gerðar á leiðinni.  Um þrjátíu manns tóku þátt í útiþrekinu á öllum aldri. 

Á miðvikudaginn var gönguferð út í Æðarsteinsvita.  Ferðin hófst við Bræðsluna og var farið hring þar sem gengið var út í vita og þaðan með fram fjörunni og upp slóða að þjóðvegi og svo aftur út í bræðslu. 

 

Mikill áhugi á brennibolta

Á fimmtudeginum var Brennó en í ár var sérstök áhersla á þennan gamalkunna leik.  Fjölmenni mættu til að spila og horfa á aðra spila brennó á Sparkvellinum og margir rifjuðu upp gamla takta.  Skipta þurfti í nokkur lið sem kepptu svo sín á milli.  Eftir leikina fengu svo allir Kristal til að svala þorstanum.

 

Hjólasprell

Hjólasprelll var á föstudeginum þar sem hjólin voru tekin fram og hjólað var út og suður um þorpið.  Góð þátttaka var og mikil stemming þrátt fyrir þoku og rigningarsudda. 

 

Tásutölt

Tásutölt var viðburður út á söndum sem allir gátu tekið þátt í.  Góð mæting var þar sem hlaupið, tölt eða gengið var um sandana á tásunum.  Sumir létu sjóinn leika um tærnar á meðan aðrir létu það nægja að fá sand á milli tánna. 

Endapunktur hreyfivikunar var svo inn í Hálsaskógi þar sem fólk var hvatt til að ganga um skóginn og enda svo í Hvítasunnumessu hjá Séra Alfreð.  Því miður varð að flytja messuna inn í kirkjuna og því varð lítið úr gönguferð inn í Hálsaskóg.