Fara á efnissvæði
12. desember 2021

Bryndís, Stefán og Andrea verðlaunahafar Forvarnardagsins

Bryndís Brá, Stefán Freyr og Andrea Erla unnu öll þrjú til verðlauna í verkefnum tengdum Forvarnardeginum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti þeim verðlaunin við hátíðalega athöfn á Bessastöðum í gær.

Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Á Forvarnardaginn ræða nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna á þeirra aldurshóp og hugmyndir sínar um samveru, íþrótta- og tómstundastarf og því að leyfa heilanum að þroskast og hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra. Þau unnu í hópavinnu og skráðu hugmyndir sínar; síðan var svörum safnað saman til að finna samnefnara í umræðum þeirra. Til viðbótar tóku nemendurnir þátt í leik þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun.

Að Forvarnardeginum koma ÍSÍ og UMFÍ, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Heimili og skóli, Skátarnir og Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var viðstaddur afhendinguna.

Við afhendingu verðlaunanna rifjaði forseti upp að þegar Forvarnardagurinn var settur í Dalsskóla í Reykjavík í október þá hafi sömu fulltrúar dagsins verið mættir, nema hann sjálfur, sem hafi verið í sóttkví á Bessastöðum. Hann hafi því rætt við aðra í gegnum netfundabúnað á Bessastöðum.

Guðni sagði Forvarnardaginn snúast um kosti þess að hafa stjórn á eigin lífi og finna að maður ætli að láta sína eigin drauma rætast.

„Það gerir maður best með því að hafa hagsmuni sjálfs sín í fyrirrúmi, hugsa vel um andlega og líkamlega líðan. Það ætlum við að gera sem samfélag, en ekki með boðvaldi og skipunum heldur í krafti sannfæringar,‟ sagði hann og áréttaði fyrir gestum Bessastaða markmið Forvarnardagsins og kostum þess að fresta því að taka fyrsta áfengissopann og neyta annarra hugbreytandi efna.  

Fleiri upplýsingar má finna á www.forvarnardagur.is og Facebook-síðu Forvarnardagsins.

Hér má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum í gær ásamt einni frá setningu dagsins þegar forsetinn talaði frá Bessastöðum.