Búið að loka fyrir skráningu á Unglingalandsmót
Skráning hefur gengið vel á Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Opið hefur verið fyrir skráningu á mótið í júlí og rann út frestur til þess á miðnætti í gær.
Mótið hefst fimmtudaginn 3. ágúst og lýkur því á sunnudagskvöldið 6. ágúst.
Á mótinu verður keppt í 18 íþróttagreinum og boðið upp á fjölmargar opnar greinar sem þarf ekki að skrá sig. Öll fjölskyldan getur tekið þátt í mörgum greinanna.
Tónleikar eru á mótssvæðinu á hverju kvöldi á meðan mótinu stendur. Þar koma fram m.a. DJ Heisi, Emmsjé Gauti, Herra Hnetusmjör og margir fleiri. Magni Bræðslustjóri og Guðrún Árný slá svo botninn í mótinu með brekkusöng.
Við hlökkum til að taka á móti öllum þeim mikla fjölda sem hefur skráð sig á Unglingalandsmótið um verslunarmannahelgina.
Aðeins kostar 8.900 krónur að taka þátt í mótinu. Innifalið í miðaverðinu er aðgangur að tjaldstæði fyrir alla fjölskylduna, alla helgina og afþreying og þátttaka í öllu sem í boði er á meðan mótinu stendur.