Fara á efnissvæði
27. júlí 2018

Búið að stækka tjaldsvæðið í Þorlákshöfn mikið

Allt er á fullum gangi við undirbúning Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ, og Ragnar M. Sigurðsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Ölfuss, skoðuðu meðal annars tjaldsvæðið í Þorlákshöfn í gær ásamt Garðari Geirfinnssyni, verkefnastjóra mótsins. 

Búið er að stækka tjaldsvæðið mikið síðan mótið var síðast haldið í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina árið 2008. Tjaldsvæðið er í göngufæri við keppnissvæðið í Þorlákshöfn og er það ókeypis fyrir mótsgesti og fjölskyldur þeirra. Aðeins er greitt fyrir afnot af rafmagni. 

Eins og alltaf er búist við miklum mannfjölda á Unglingalandsmótinu. Þetta er líka sannkölluð fjölskylduhátíð. Boðið er upp á fjölda keppnisgreina fyrir 11 – 18 ára börn og ungmenni. Allir á þessum aldri geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag. Margt er í boði fyrir börn og fullorðna frá morgni til kvölds allt frá knattspyrnu, körfubolta og frjálsum til nýrra og framandi greina á borð við sandkastalagerð, dorgveiði og kökuskreytingar. 

Unglingalandsmót UMFÍ hefst fimmtudaginn 2. ágúst og lýkur því sunnudaginn 5. ágúst. 

 

Allt um Unglingalandsmót UMFÍ og skráning á www.ulm.is

Mikið líf og fjör er á tjaldsvæðum á Unglingalandsmóti UMFÍ. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á tjaldsvæðinu á mótinu á Egilsstöðum í fyrra.