Fara á efnissvæði
24. mars 2021

COVID 19: Allt íþróttastarf fellur niður á nýjan leik

Stjórnvöld kynntu harkalegar aðgerðir í dag í því skyni að hefta mögulega útbreiðslu breska afbrigðis kórónuveirunnar á Íslandi.  Íþróttastarf fellur niður á landsvísu frá og með miðnætti í kvöld (24. mars 2021) til 15. apríl.

Fram kemur á vef stjórnarráðsins um aðgerðirnar að ákvörðunin hafi verið tekin vegna sterkra vísbendinga um aukið COVID-19 samfélagssmit af völdum veiruafbrigðis, sem smitast milli fólks í ríkari mæli en önnur. Þá segja stjórnvöld að hópsýkingar að undanförnu séu allar af völdum breska afbrigðis kórónuveirunnar, það sé meira smitandi en flest önnur afbrigði og valdi alvarlegri veikindum.

Að öðru leyti er í meginatriðum um að ræða sömu reglur og tóku gildi 31. október í fyrra.


Aðgerðirnar í stuttu máli:

Inni- og útiíþróttir verða óheimilar þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra bil milli fólks eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, sundstaðir verða lokaðir sem og líkamsræktarstöðvar. Sviðslistastarf verður óheimilt, bæði æfingar og sýningahald.
 

Hertar sóttvarnaaðgerðir í hnotskurn:

  • Tíu manna fjöldatakmörkun verður meginregla og ná hún til allra sem eru fæddir 2014 og fyrr. Aðeins börn fædd 2015 og síðar verða þar undanskilin.
  • Íþróttastarf um allt land fellur niður. Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar. 
  • Nándarregla verður áfram 2 metrar.
  • Reglur um grímuskyldu eru óbreyttar. Börn fædd 2005 og yngri eru undanskilin grímuskyldu.
  • Sund og baðstaðir skulu lokaðir.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum skal lokað.
  • Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað þar til páskafrí tekur við.
  • Margvísleg starfsemi sem rúmast ekki innan reglu um 10 manna fjöldatakmörkun verður stöðvuð. Unnið verður að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi á næstu dögum.
  • Aðgerðir gagnvart starfsemi skóla ná til Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni og fellur allt starf þeirra niður fram yfir páska.

Reglugerð heilbrigðisráðherra
Minnisblað sóttvarnalæknis
Meiri upplýsingar á vef Stjórnarráðsins