Crossnet spilað í fyrsta sinn á Íslandi
„Crossnet er eins og blak spilað á litlu neti í kross með fjóra velli þar sem einn leikmaður er á hverjum. Það er spilað með blakbolta og blaksnertingum,“ segir Sigríður Þrúða Þórarinsdóttir, blakspilari í Neskaupstað.
Leikið verður í íþróttinni í fyrsta sinn á Íslandi á Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið er í Neskaupstað um helgina. Íþróttinni svipar að mörgu leyti til blaks og getur nýst í að þjálfa upp árvekni blakspilara.
„Það er svipað og pógó sem margir krakkar þekkja. Einn er kóngurinn og fær stig þegar boltinn lendir á velli annars leikmanns eða fer út af. Boltinn þarf að fara yfir krossinn í uppgjöf en getur annars gengið í allar áttir,“ bætir Sigríður við.
„Þetta er fín hreyfing og góð æfing fyrir blakspilara. Það má segja að þetta sé nokkurs konar Bobby Fisher blak, þrívíður blakleikur. Þú þarft alltaf að vera tilbúinn og á hreyfingu.“
Crossnetið er ekki formleg keppnisgrein heldur kynningargrein á mótinu þar sem UMFÍ hefur flutt inn búnað til að iðka íþróttina. Netin fyrir íþróttina eru komin upp á strandblakvellinum í Neskaupstað þannig áhugasamir geta farið þangað að spila strax.
Crossnetið er á dagskrá mótsins frá klukkan 11:00-15:00 í dag, laugardag og opið fyrir alla aldurshópa.
Lesa má fréttina og viðtalið á vef Austurfréttar