Fara á efnissvæði
04. september 2017

Dagur íslenskrar náttúru 16. september

Dagur íslenskrar náttúru er að venju 16. september næstkomandi. Hann verður haldinn í sjöunda sinn á þessu ári.

Á Degi íslenskrar náttúru er kjörið tækifæri að beina sjónum að þeim auði sem felst í íslenskri náttúru, í stóru og smáu samhengi. Frá upphafi hafa sveitarfélög, skólar, stofnanir, fyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök fagnað Degi íslenskrar náttúru með fjölbreyttum hætti; efnt til viðburða, vakið athygli á málefnum sem varða íslenska náttúru eða haft náttúruna sem þema við leik og störf á þessum degi eða í tengslum við hann.

Þeir sem nýta sér samfélagsmiðla í tengslum við daginn eru minntir á myllumerkin #íslensknáttúra og #DÍN.

Nánari upplýsingar eru að finna á vef Stjórnarráðsins á slóðinni: www.stjornarradid.is/din

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun skrá alla viðburði sem því er kunnugt um á sérstakri dagskrársíðu á vef Stjórnarráðsins og má senda upplýsingar um þá á netfangið bergthora.njala@uar.is.

Í tengslum við Dag íslenskrar náttúru afhendir umhverfis- og auðlindaráðherra tvær viðurkenningar; Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti og Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

 

UMFÍ hugar að náttúrunni

Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) hefur verið umhugað um náttúruna frá stofnun hreyfingarinnar árið 1907 enda er kjörorð UMFÍ ræktun lýðs og lands.

Í samræmi við kjörorðin um ræktun lýðs og lands leggur UMFÍ áherslu á að vinna að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska félagsmanna ásamt virðingu fyrir umhverfi og náttúru landsins. UMFÍ lætur sig varða lýðheilsu almennings og leggur sitt af mörkum við að búa komandi kynslóðum sem best uppvaxtarskilyrði.

 

Þrastaskógur

UMFÍ hefur lengi lagt rækt við umhverfið. Árið 1911 gaf Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri, þingmaður og athafnamaður, Ungmennafélagi Íslands 45 hektara svæði meðfram Soginu í Grímsnesi austan við Ingólfsfjall. Ungmennafélagar víða að hófu strax ræktun svæðisins og réð skógarvörð til að hafa umsjón með því.

Árið 19014 lagði Guðmundur Davíðsson, þá formaður UMFÍ, að skógurinn fengi heitið Þrastaskógur. Heitið vísaði til þess að hvergi var jafn marga skógarþresti að sjá en í kringum þetta svæði sem Tryggvi gaf UMFÍ. Þessi tillaga Guðmundar var samþykkt.

Þrastaskógur hefur vaxið mikið á þeim rúmu hundrað árum sem liðin eru frá því ungmennafélagar hófu ræktun hans. Þar er nú víðfemur og fallegur skógur og hvergi að finna fleiri sumarbústaði og í kringum Þrastarskóg.

 

Umhverfisverðlaun UMFÍ

UMFÍ veitir jafnframt Umhverfisverðlaun á hverju ári og eru þau afhent þeim sem vinnur ötult starf að umhverfismálum fyrir samfélagið. Á síðasta ári hlaut þau Guðni Guðmundsson á Þverlæk í Rangárvallasýslu.