Fara á efnissvæði
05. desember 2017

Dagur sjálfboðaliðans: Börnin sjá að maður hefur áhuga

„Það getur verið mjög mikið að gera hjá mér. En þetta er skemmtilegt. Þegar elsti sonur minn byrjaði að æfa körfubolta fylgdi ég með. Það skiptir máli að börnin sjái að maður hefur áhuga á starfinu og hvetur þau áfram,“ segir Dagný Finnbjörnssdóttir. Hún er 28 ára snyrtifræðingur, húsmóðir og í háskólanámi í fjarnámi frá Hnífsdal á Vestfjörðum.

Í dag er Dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Sjálfboðaliðastörf hafa verið uppistaðan í öllu starfi UMFÍ í 110 eða frá því að hreyfingin var stofnuð árið 1907. Nokkrir sjálfboðaliðar sem hafa unnið mikið og gott starf fyrir sambandsaðila UMFÍ segja frá því á www.umfi.is í dag hvernig það er að vera sjálfboðaliði. 

 

Fann syllu sína í barnastarfinu

Dagný vinnur mikið sjálfboðaliðastarf. Hún æfði körfubolta á árum áður en er í stjórn barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra á Vestfjörðum. Auk þess er hún formaður sambands vestfirskra kvenna og er félagi kvenna í atvinnurekstri.

Dagný er snyrtifræðingur að mennt. Þegar hún fór að vinna sem sjálfboðaliði í barna- og unglingaráði körfuknattleiksdeildarinnar þá fann hún sína syllu. „Þegar ég vann með börnunum fann ég hvað ég vildi í raun og er að læra að verða grunnskólakennari,“ segir hún og viðurkennir að stundum sé mikið að gera. Þá skipti máli að vera með góða dagbók.