Fara á efnissvæði
05. desember 2017

Dagur sjálfboðaliðans: „Gefur mér tækifæri til að gera það sem ég elska“

„Sjálfboðaliðastarfið gefur mér tækifæri til að gera það sem ég elska. Það er gefandi og ég mæli með því,“ segir íþróttakennarinn Guðjón Örn Jóhannsson á Sauðárkróki. Hann heldur utan um Vinaliðaverkefni á Íslandi, er í stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls og á þrjár stelpur á aldrinum 9-17 ára sem æfa bæði frjálsar og körfubolta.

Í dag er Dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Sjálfboðaliðastörf hafa verið uppistaðan í öllu starfi UMFÍ í 110 eða frá því að hreyfingin var stofnuð árið 1907. Nokkrir sjálfboðaliðar sem hafa unnið mikið og gott starf fyrir sambandsaðila UMFÍ segja frá því á www.umfi.is í dag hvernig það er að vera sjálfboðaliði. 

 

Hefur nóg að gera

Guðjón segir hafa unnið ýmis konar sjálfboðaliðastörf í um 20 ár. Auk þess sem áður var talið upp verið í foreldrafélögum og tilheyrt félagsskap í skólaum sem málar á vorin fyrir fólk sem þarf á hjálpa að halda.

Allt eru þetta störf sem Guðjón hefur gaman af.

„Ég tek ekki að mér sjálfboðaliðastarf nema það sem mér finnst gaman að. Ég hef nóg að gera af því sem mér finnst skemmtilegt,“ segir hann og bætir við að hann fái þakklæti að launum fyrir sjálfboðaliðastarfið, nokkuð sem fólk fái yfirleitt ekki fyrir launuð störf.