Dagur sjálfboðaliðans: Sjálfboðaliðinn bætir samfélagið
„Það er alltaf gaman að vera sjálfboðaliði því ég er að gera samfélaginu gagn,“ segir Guðmunda Ólafsdóttir. Hún hefur verið sjálfboðaliði frá unga aldri og er nú formaður frjálsíþróttaráðs HSK og formaður Umf. Þjótanda í Flóahreppi.
Í dag er Dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Sjálfboðaliðastörf hafa verið uppistaðan í öllu starfi UMFÍ í 110 eða frá því að hreyfingin var stofnuð árið 1907. Nokkrir sjálfboðaliðar sem hafa unnið mikið og gott starf fyrir sambandsaðila UMFÍ segja frá því á www.umfi.is í dag hvernig það er að vera sjálfboðaliði.
Guðmunda er 28 ára og telur að hún hafi verið um 12 ára þegar hún seldi jólapappír í sjálfboðavinnu fyrir ungmennafélagið. Þegar hún hafði aldur til fór hún að mæla í stökkum og fleira.
Guðmunda segir þó geta stundum verið erfitt að vera sjálfboðaliði, sérstaklega þegar hún þarf að virkja fleiri með sér ot búa til hóp og vinna gott verkefni.