Fara á efnissvæði
23. nóvember 2018

Danir skoða íþróttaaðstöðu ungmennafélaga

Um 20 fulltrúar aðildarfélaga DGI Østjylland í Danmörku eru staddir hér á landi um þessar mundir. Hópurinn kom í heimsókn í  þjónustumiðstöð UMFÍ í dag ásamt Gissuri Jónsson, framkvæmdastjóra Ungmennafélags Selfoss (Umf. Selfoss) og fleiri góðum gestum frá UMFS og HSK. Í þjónustumiðstöðinni fékk danski hópurinn kynningu á starfsemi UMFÍ og verkefnum sambandsins, m.a. Unglingalandsmótinu og Landsmótinu. DGI Østjylland er héraðssamband DGI, sem eru systursamtök UMFÍ í Danmörku.

Heimsókn félaganna frá DGI Østjylland er liður í tengslamyndun sambandsins danska og UMFS.

 

Samstarf er alltaf gott

Forsaga málsins er sú að UMFS fékk 3,5 milljóna króna styrk frá Evrópu unga fólksins (EUF) í lok árs 2017 til að auka þekkingu og fá nýjar hugmyndir í starfi með ungu fólki hjá félaginu í samstarfi við DGI Østjylland. Fulltrúar frá UMFS og HSK fóru utan í september til að kynna sér það sem félög innan DGI Østjylland hafa upp á að bjóða, að koma á tengslum félagsmanna og stjórnenda úti og efla þekkingu og koma með nýjungar í þjálfun ungmenna. Danski hópurinn er nú á landinu. Hann hefur ferðast um Suðurland og skoðað íþróttaaðstöðu bæði á Selfossi og í Hveragerði svo eitthvað sé nefnt. Í dag kom hópurinn til UMFÍ og skoðaði auk þess íþróttahús Fjölnis og fleira.

Gissur sagði í samtali við Skinfaxa, tímarit UMFÍ, í byrjun árs vonast til að verkefnið verði til þess að fleiri félög byggi brýr til íþróttafélaga í öðrum löndum.

„Við teljum að verkefnið víkki sjóndeildarhringinn og veiti ungu fólki tækifæri sem það hafði ekki áður. Við erum með tengiliði. En nú viljum við fara lengra með málið og læra hvernig á að gera gott starf enn betra, skoða aðstöðuna, uppbyggingu félaganna og læra af Dönum um barna- og unglingastarf. Það er svo aldrei að vita nema þetta geti orðið vettvangur fyrir ungmennaskipti og flutning á þekkingu milli landa,“ segir hann.

Gissur sagði líka drauminn að forsvarsmenn fleiri félaga feti í fótspor Umf. Selfoss, fari utan og efli bæði tengsl og samstarf við erlend félög. Hann mælir með EUF í tengslum við slík skref.

„Það er gott að sækja um styrki hjá EUF því það getur bætt starf okkar svo mikið. En það þarf að vanda sig við umsóknina,“ segir hann.

 

LESA MÁ ALLT VIÐTALIÐ VIÐ GISSUR HÉR