Fara á efnissvæði
03. ágúst 2017

Danskir snillingar æfa sig í loftfimleikum

Fimmmenningarnir í danska fimleikahópnum Motus Teeterboard mættu til Egilsstaða í dag. Þeir verða með sýningu við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Þeir sem vilja sjá Motus Teeterboard eða læra loftfimleika eins og þeir stunda geta skellt sér á nokkrar sýningar og vinnubúðir þeirra á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Bæði vinnubúðir og sýningarnar eru öllum opnar.

Fimleikahópurinn mætir hingað í boði íslenska fyrirtækisins Motus ehf og er góður bakhjarl mótsins.

Motus Teeterboard samanstendur af fimm kraftmiklum strákum á þrítugsaldri sem slógu í gegn í dönsku hæfileikakeppninni Danmark Got Talent á TV2 í fyrra. Þeir eru þaulreyndir í fimleikum, hafa verið á meðal helsta fimleikafólks í heimi og sérhæfa sig í því sem upp á íslensku má kalla vegasalt (e. teeterboard).

Fimleikastrákarnir, sem eru miklir sprelligosar, æfðu sig fyrir herlegheitin í íþróttahúsinu á Egilsstöðum síðdegis í dag. Gestir og þátttakendur Unglingalandsmótsins mega búast við heilmiklu húllumhæi með Motus Teeterboard.

Dagskrá Motus Teeterboard um verslunarmannahelgina

Föstudagur

20:00 – Vilhjálmsvöllur


Laugardagur

13:00-16:00 – Vinnubúðir í Tjarnargarðinum.
21:00-21:30 – Sýning í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum.
22:00-22:30 – Sýning í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum.

Sunnudagur

17:00-21:00 – Vinnubúðir í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum.

Hér má sjá myndir frá æfingu félaganna í Motus Teeterboard síðdegis í dag.