Fara á efnissvæði
15. janúar 2021

Dreifið upplýsingum um íþrótta- og tómstundastyrki með UMFÍ

UMFÍ vekur sérstaka athygli á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum. Markmiðið með þeim er að jafna tækifæri barnanna til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

UMFÍ hvetur því sambandsaðila og aðildarfélög þeirra til að vekja athygli á styrkjunum. Hægt er að sækja um fyrir því sem var greitt í haust.

 

Áhersla að ná til fólks

Rannsóknir sýna að mikilvægt er að halda sem flestum börnum virkum í íþrótta- og frístundastarfi og tryggja jafnt aðgengi barna og unglinga að slíku starfi. Lögð hefur verið áhersla á að ná til sem flestra forráðamanna og hefur því verið komið af stað kynningarátaki á fjölda tungumála um íþrótta- og tómstundastyrkina.

Styrkina er hægt er að nota til  niðurgreiðslu á þátttökugjöldum vegna íþróttaiðkunar, tónlistanáms eða annarra tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um úthlutun styrkjanna en fyrirkomulag getur verið breytilegt á milli sveitarfélaga til dæmis varðandi hvaða íþrótta- og tómstundastarf er styrkhæft, hvaða gögnum beri að skila með umsókn og afgreiðslutími umsókna.

Styrkirnir koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaga. Alls ætlar Félagsmálaráðuneytið að verja um 900 milljónum króna í verkefnið árin 2020 og 2021.

Styrkurinn er 45.000 kr. á hvert barn og eiga um 13.000 börn rétt á styrknum. Sveitarfélögin annast afgreiðslu styrkumsókna eftir að búið er að kanna rétt til styrksins inni á Ísland.is

Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí 2020.

 

Frístundir hafa forvarnargildi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti aðgerðina í vor og er hún hluti af aðgerðapakka sem ætlað er að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á afkomu efnaminni heimila í landinu.

 

Myndbönd á níu tungumálum

Ráðuneytið hefur jafnframt búið til myndbönd á níu mismunandi tungumálum þar sem styrkirnir og fyrirkomulag þeirra er kynnt. 

Íslenska

Enska

Kúrdíska

Litháíska

Pólska

Rúmenska

Spænska

Taílenska

Víetnamska

Farsi

Arabíska