Fara á efnissvæði
11. ágúst 2022

Drullugasta hlaup landsins haldið í fyrsta sinn

„Við hlökkum til að hlaupa af stað inn í skemmtilegasta og drullugasta viðburð ársins og vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Fanney Bjarnadóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Krónunni, sem er bakhjarl Drulluhlaups Krónunnar.

Eins og fólk veit hefur Krónan lengi lagt ríka áherslu á lýðheilsumál og sett sér skýra stefnu um mikilvægi málefnisins.

„Við hjá Krónunni höfum ávallt hvatt okkar starfsfólk og viðskiptavini til að huga að heilsusamlegu líferni og ekki síst að hafa gaman og því lá þátttaka okkar í Drulluhlaupinu í augum uppi,“ heldur Fanney áfram.

Drulluhlaupið fer fram laugardaginn 13. ágúst í Mosfellsbæ og er viðburðurinn haldinn í fyrsta sinn.

 

Hér má sjá kort af hlaupaleiðinni

 

 

Rás- og endamark Drulluhlaupsins er við Íþróttahúsið að Varmá í Mosfellsbæ og þurfa þátttakendur að yfirstíga helling af hindrunum, hólum, hæðum og skurðum og á sama tíma leysa hinar ýmsu þrautir til að komast á leiðarenda. Drulluhlaup Krónunnar er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ og 100 ára afmæli Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

„Við erum hrikalega spennt að halda drullugasta hlaup landsins í fyrsta sinn og er markmiðið einfaldlega að hafa gaman og stunda skemmtilega hreyfingu. Við miðum við að krakkar, átta ára og eldri, komist auðveldlega í gegnum brautina með aðstoð foreldra eða forráðamanna og síðan hafa allir þátttakendur kost á að skola af sér í Varmárlaug að hlaupi loknu. Eva Ruza og Siggi Gunnars halda fjörinu gangandi meðan á viðburðinum stendur. Það verður mikið fjör fyrir alla fjölskylduna í Mosfellsbæ á laugardag,“ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri UMSK.

 

Drulluhlaup Krónunnar í hnotskurn

 

 

Skráning í Drulluhlaup Krónunnar er í fullum gangi og gengur hún vonum framar.

Skráning í Drulluhlaup Krónunnar