Fara á efnissvæði
07. ágúst 2024

Edvard steig stór skref á Unglingalandsmóti

Edvard Þór Ingvarsson steig stór skref á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um helgina. Hann er með þroskahömlun, einhverfu og Tourette og kom á mótið með Special Olympics-liði Hauka í Hafnarfirði til að taka þátt í Körfuboltamóti Íþróttasambands fatlaðra. Hann skráði sig líka í pílukast og bogfimi, badminton og langstökk í frjálsum íþróttum en náði ekki að taka þátt í síðasttöldu greininni þar sem hún skaraðist á við aðrar. 

„Ég er svo stolt af honum því þarna voru svo margir sigrar hjá honum og líka fleirum þátttakendum með fatlanir. Edvard var líka mjög ánægður því hann kunni ekki mikið í þeim greinum sem hann skráði sig í, hafði sem dæmi aldrei prófað bogfimi, pílukast og fleira,“ segir móðir hans, Helga Olsen hjá íþróttafélaginu Ösp. 

Edvard, sem varð 16 ára í júní, hefur áður tekið þátt í keppnum með einstaklingum sem ekki eru með fötlun. Upplifun hans hefur ekki verið góð og því var hann hræddur við að taka skrefið á Unglingalandsmótinu. Móðir hans hvatti hann til að prófa enda hafi þátttaka hans hjá Haukum stóreflt sjálfstraust hans til þátttöku í íþróttum. Og það gerði hann svo sannarlega því auk þess að taka þátt í nokkrum keppnisgreinum tók Edvard auk þess fullan þátt í sundlaugarfjöri og badminton LED á mótinu.

 

Vildi vera fyrirmynd fyrir aðra

Helga segir að það sem helst hvatti Edvard áfram voru hvatningarorð Davids S. Evangelista, framkvæmdastjóra Special Olympics í Evrópu og Asíu, sem kom hingað til lands í vor og skrifaði þá undir samstarfssamning við Mennta- og barnamálaráðuneytinu með Ásmundi Einari Daðasyni og Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi. Edvard skrifaði undir samninginn fyrir hönd iðkenda en auk þess að æfa körfubolta með Haukum stundar hann líka skauta hjá Íþróttafélaginu Öspin. 

Við undirritun samstarfssamningsins ræddi David Evangelista við Edvard og sagði hann mikilvæga fyrirmynd fyrir iðkendur með fötlun. Það vildi Edvard sýna í verki. Þegar Unglingalandsmótið var sett fór Edvard úr úlpunni sinni og gekk með öðrum þátttakendum mótsins inn á íþróttavöllinn undir fána Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.  

„Edvard fannst þetta mjög erfitt því hann þekkti hina þátttakendurna ekki neitt. En orð Davids hvöttu hann áfram og hann vildi sanna fyrir öðrum að þátttakandi með fötlun gæti tekið þátt í flestu eins og aðrir. Ég var svo stolt af honum,“ segir Helga.

Edvard var reyndar ekki eini keppandi í Special Olympics-liði Hauka sem tók þátt í öðrum greinum á Unglingalandsmótinu. Það gerði líka Heiðdís Erna Egilsdóttir. Hún tók þátt í keppni í kökuskreytingum og hlaut verðlaun fyrir árangurinn.

 

Mikilvægt að fræða

Um tíu þátttakendur með fötlun tóku þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Helga segir vel hægt að fjölga í hópnum. Það þurfi að gera markvisst og með upplýstum hætti.

„Eitt af því sem við Edvard þurftum að gera var að ræða um greinarnar og ég að upplýsa hann um þær, því þá dróg úr hræðslu hans við að taka þátt. Ef við höldum því áfram held ég að þátttakendur með fatlanir verði fleiri á næsta móti,“ segir Helga.

Næsta Unglingalandsmót UMFÍ verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2025.