Efnt er til blaðamannafundar
UMFÍ og ÍSÍ boða til blaðamannafundar fimmtudaginn 27. september kl. 12:15 – 13:00 í Valsheimilinu í Reykjavík í tengslum við verkefnið, Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Á Íslandi er talið að um 10% íbúa séu innflytjendur en samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 12% allra þeirra sem búa á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem Rannsókn og greining lagði fyrir alla nemendur í 8. – 10. bekk á Íslandi 2016 stunda 56% barna og ungmenna nær aldrei íþróttir þar sem engin íslenska er töluð á heimilinu og 46% barna og ungmenna stunda nær aldrei íþróttir þar sem íslenska er töluð ásamt öðru tungumáli.
Ljóst er að íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin getur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og gert fleiri börnum kleift að stunda íþróttir. Það hefur sýnt sig að þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er besta forvörnin og mikilvægt að bæta úr þessu.
Dagskrá
- Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsókn og greiningu flytur örerindi um stöðuna Hvað vitum við? Hversu mörg börn af erlendum uppruna taka þátt í dag í skipulögðu íþróttastarfi og fleira.
- Maciej Baginski, körfuboltamaður frá Njarðvík og Samar E. Zahilda, taekwondokona úr Ármanni, flytja örerindi um hvað það hefur þýtt fyrir þau að stunda íþróttir frá barnæsku. Bæði eru þau af erlendum uppruna og telja þátttöku í íþróttum hafa hjálpað sér að eignast vini, læra íslensku og verða hluti af samfélaginu.
- Styrkir UMFÍ og ÍSÍ afhentir fulltrúum fimm íþrótta- og ungmennafélögum.
Léttar veitingar í boði.
Allir áhugasamir velkomnir.
Verkfæri fyrir íþróttahreyfinguna
Nú í september kom út bæklingur sem hefur það að markmiði að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. Markhópur efnisins eru foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna.
Í bæklingnum er að finna hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins. Sem dæmi má nefna upplýsingar um æfingagjöld íþróttafélaga, frístundastyrki, mikilvægi þátttöku foreldra og kosti þess að hreyfa sig í skipulögðu starfi.
Bæklingurinn er gefinn út á sex tungumálum þ.e. á íslensku, ensku, pólsku, tælensku, litháísku og filippseysku.
Efnið er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ.
Smelltu hér til þess að kynna þér bæklingana.
Styrkir til félaga
UMFÍ og ÍSÍ auglýstu fyrir skömmu að íþrótta- og ungmennafélög geti sótt um styrk upp á 180.000 krónur til að standa fyrir verkefni sem hvetur börn af erlendum uppruna til þátttöku í íþróttastarfi.
Á fimmtudag verður tilkynnt hvaða fimm félög hljóta styrki.
Við hlökkum til að sjá sem flesta.