Fara á efnissvæði
01. nóvember 2023

Eftir því sem börn æfa meira eru minni líkur á að þau hætti í íþróttum

„Eftir því sem börn og ungmenni æfa fleiri íþróttagreinar og oftar í viku eru minni líkur á að þau hætti í íþróttum,“ segir Peter O‘Donoghue, nýráðinn prófessor við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, en hann hóf þar störf í haust. 

Peter kafaði nýverið ofan í gögn Sportabler um íþróttaiðkun barna og ungmenna og skoðaði  íþróttaiðkun frá því í febrúar 2021 og fram í febrúar á þessu ári. Stór hluti íþróttafélaga á Íslandi notar kerfi Sportabler til að halda utan um íþróttaiðkendur. Einhver félög nota önnur kerfi og takmarkar það rannsóknina.

 

Hver er þessi Peter?

Peter O‘Donoghue er þekktur fyrir vinnu sína, rannsóknir og kennslu á sviði  frammistöðugreiningar í íþróttum (e. sport performance analysis). Margir af fyrrverandi nemendum hans hafa náð miklum frama í störfum innan íþróttaheimsins. Peter er með doktorsgráðu í tölvunarfræði frá Ulster-háskóla á Norður-Írlandi frá árinu 1993 og kenndi og stundaði rannsóknir í tölvunarfræði við tvo háskóla. Árið 1995 hóf hann rannsóknarsamstarf við íþróttafræðideild Ulster-háskóla. Hann er jafnframt afkastamikill fræðimaður og hefur verið aðalfyrirlesari á fjölmörgum ráðstefnum, hefur skrifað fimm kennslubækur um frammistöðugreiningu og kennslubók í tölfræði.

Peter hefur verið aðalritstjóri International Journal of Performance Analysis in Sport síðan árið 2006.

 

Gott að æfa margar greinar 

Peter kynnti nýverið könnun sína á íþróttaiðkun barna og ungmenna samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í Sportabler. Mengið var rúmlega 42 þúsund iðkendur í 45 íþróttagreinum, flestir fæddir á árunum 2003 til 2017. Sum þeirra stunduðu eina íþrótt en önnur fleiri. Eins og Peter lýsti könnuninni sjálfur lágu litlar upplýsingar fyrir um hvort skýra mætti brottfall úr íþróttum, það er hvort iðkendur hefðu hætt alfarið að æfa íþróttir eða farið að stunda aðrar greinar.

„Við sjáum að það var aðeins 15% brottfall úr skipulögðu íþróttastarfi á tímabilinu. Við óttuðumst að það væri miklu meira. En tiltölulega fáir hættu og margir skiptu um grein,“ segir hann og nefnir sem dæmi að iðkendur hættu í handbolta og fóru í fótbolta eða öfugt.

Ekki er munur á milli kynja, að hans sögn. Peter segir gögnin gríðarlega umfangsmikil og gefa góðar vísbendingar um þróun íþróttastarfs. 

„Við sjáum að því fleiri íþróttagreinar sem börn og ungmenni æfa, þeim mun minni líkur eru á að þau hætti í íþróttum. Margir iðkendur eru í tveimur greinum og æfa oft. En við sjáum líka í tölunum að brottfall eykst í hlutfalli við tíðni æfinga í hverri viku. Þar á ég við að eftir því sem iðkendur æfa sjaldnar í hverri viku eru meiri líkur á að þeir hætti æfingum,“ segir Peter og bendir á að fjórar æfingar í viku eða oftar dragi verulega úr líkum þess að iðkendur hætti íþróttaæfingum. Ekki er teljandi munur á kynjum, að sögn Peters. Þau gögn sem hann hefur skoðað benda til að algengara sé meðal drengja en stúlkna að æfa fleiri íþróttagreinar en eina. 

„Gögnin sýna líka að börn af íslensku bergi brotin æfa gjarnan tvær eða fleiri greinar. Það er meira en börn sem eiga foreldra frá Póllandi eða öðru landi. Við getum unnið með þá vitneskju,“ segir Peter. 

 

Forskot að fæðast fyrr á árinu

Könnun Peters leiddi fleira í ljós. Sumt af því var vitað en annað ekki. Og sum atriði voru dregin betur fram í dagsljósið.

Á meðal þessara atriða voru vangaveltur um það hvort máli skipti fyrir árangur í íþróttum hvenær iðkendur eru fæddir. Þetta er misjafnt eftir greinum, að sögn Peters.

„Það skiptir sem dæmi miklu í knattspyrnu og körfubolta hvenær iðkendur eru fæddir á árinu. Þau sem eru fædd fyrr á árinu hafa forskot, af því að þau eru almennt stærri en þau sem eru fædd í desember. Þessu er hins vegar öfugt farið í fimleikum, því þar felst forskotið í því að vera lágvaxinn og minni á allan hátt,“ segir Peter en bendir á að þótt vissulega skipti máli hvenær iðkendur eru fæddir ráði það ekki úrslitum. 

Peter bendir máli sínu til stuðnings á að aldurs- og getudreifing knattspyrnufólks í Bretlandi sýni að í úrvalsdeildarliðum og flokki atvinnufólks séu leikmenn margir fæddir á fyrsta ársfjórðungi en í áhugamannaliðum og neðri deildum séu leikmenn fæddir á seinni hluta ársins.

Hann ítrekaði hins vegar að þetta mætti ekki taka bókstaflega, þótt niðurstöðurnar væru séu  vísbendingar.
„Þegar ég var strákur vissi ég ekki að þau sem voru fædd á einum tíma ársins hefðu forskot frá náttúrunnar hendi. Ég hélt alltaf að mig skorti hæfileika í því sem ég vildi æfa. Þess vegna fór ég í frjálsar íþróttir,“ segir Peter kíminn.

 

Flakk á milli greina

Gögnin úr Sportabler gefa ekki aðeins vísbendingu um minna brottfall óttast hafði verið úr skipulögðu íþróttastarfi á meðan COVID-faraldurinn geisaði. Gögnin benda til að iðkendur hafi flakkað svolítið á milli greina.

Vísbendingar eru um að iðkendur í fótbolta hafi farið í frjálsar, fimleika og sund en skilað sér aftur. Almenna hreyfingin er að iðkendur í hópíþróttum leita í aðrar hópíþróttir, eins og fótboltaiðkendur sem fara í körfubolta eða handbolta. Þegar iðkandi vill skipta um grein skiptir máli hvaða framboð er á öðrum greinum, að sögn Peters. Það skýrir m.a. að stúlkur sem hætta í fótbolta og fleiri greinum á Norðurlandi fara í fimleika, sem virðist vera endastöðin þar. Með sama hætti hafa margar farið í blak en nú eru um 70% iðkenda í blaki konur. 

„Það kom okkur skemmtilega á óvart,“ segir Peter. Hann hefur nú þegar skoðað tilfærslur iðkenda á milli greina hjá nokkrum félögum, þá helst KA og Breiðabliki. Hann telur gagnlegt að skoða hreyfinguna hjá fleiri og hvort munur sé á kynjunum, enda hægt að skoða gögn eftir kynjum og póstnúmerum. 

„Gögnin og þessi skoðun getur nýst íþróttafélögum með ýmsum hætti, svo sem til að sjá betur úr hvaða greinum iðkendur eru að fara og hvert þeir fara,“ segir Peter.

 

Þessi grein er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur lesið enn fleiri góðar greinar þar á www.umfi.is. Þú getur smellt á myndina hér að neðan og lesið blaðið allt. 

Hér er dæmi um greinar í blaðinu:

•    Magndís Alexandersdóttir: ég er fædd inn í ungmennafélagshreyfinguna.
•    Vésteinn Hafsteinsson: Börn á að ala upp sem leiðtoga.
•    Ungmennaráð UMFÍ: Mikilvægast að fræðast, fræða aðra, vera fyrirmynd, láta í sér heyra og kjósa.
•    Merkilegt að geta hlaupið með forsetanum.
•    Beið eftir pennavini í meira en 40 ár.
•    Ungmenni í leiðtogavinnu.
•    Hvetur íþróttafélög til að halda umhverfisvæna viðburði.
•    Ný vinabönd verða til á Reykjum.
•    Íþróttafélögin stuðla að vellíðan eldri borgara.
•    Tímamótatillaga á þingi UMFÍ
•    Hvernig getur íþróttamaður tekist á við vonbrigði?
•    Gamlir mótherjar hittast á ný.
•    Svakalegt stuð á Unglingalandsmóti UMFÍ.
•    Metaðsókn og myndir úr Drulluhlaupi Krónunnar.
•    Íslenskur glímukóngur slær í gegn í Bandaríkjunum.
•    Börnin hoppa sér til ánægju.
•    Borðtennisdeildir spretta víða upp.
•    Gamla myndin: Allt er gott sem endar vel.