Einar og Helgi ætla að keppa í mörgum greinum
„Við höfum farið á Unglingalandsmót UMFÍ í fimm ár og höfum alltaf verið þar með vinum okkar. Þar er gaman og stemning á tjaldstæðinu og kvöldvökunum,“ segir Helgi Hrannar Briem sem hefur skráð sig í fjölda greina með tvíburabróður sínum Einari Andra. Þeir verða báðir fimmtán ára síðar á árinu og kepptu fyrst þegar þeir voru á ellefta ári. Þeir æfa knattspyrnu með Breiðabliki og handbolta með HK í Kópavogi og eru skráðir á mótið undir merkjum Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).
Helgi skráði sig á dögunum í keppni í mörgum greinum. Þar á meðal í strandblaki, frisbígolfi, fótbolta og líka í nýju greinunum, kökuskreytingum og dorgveiði. Þeir bræður eru sem fyrr í sama liðinu í fótbolta í Þorlákshöfn.
Boðið var upp á keppni í kökuskreytingum í fyrsta sinn á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum í fyrra. Hún sló algjörlega í gegn. Keppendur voru gríðarlega margir og fylltu áhorfendur salinn þar sem keppnin fór fram.
„Okkur gekk vel í kökuskreytingunum þótt við höfum ekki náð að komast í verðlaunasætið,“ segir Helgi og ætlar að gera betur í ár en í fyrra.
Mót fyrir alla fjölskylduna
Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina 2. – 5. ágúst. Búið er að stækka tjaldsvæðið í Þorlákshöfn umtalsvert síðan mótið var síðast haldið þar fyrir tíu árum. Svo er líka miklu meiri fjölbreytni nú en nokkru sinni. Þar á meðal eru greinar sem gera allri fjölskyldunni kleift að taka þátt í og keppa saman.
Á mótinu er boðið upp á 20 keppnisgreinar. Þar á meðal eru nokkrar nýjar eins og sandkastalagerð og dorgveiði auk klassískra greina á borð við fótbolta, körfubolta og frjálsar íþróttir.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11–18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Mótið er því sannkölluð fjölskylduhátíð og er búist við ótrúlegum fjölda barna og ungmenna ásamt fjölskyldum þeirra á mótið. Ekki er skilyrði að vera skráður í ungmenna- eða íþróttafélag til þess að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ.
Þétt dagskrá er alla mótsdagana og skemmtun á kvöldin þar sem margt af þekktasta tónlistarfólki landsins kemur fram. Þegar hafa boðað komu sína Jói Pé og Króli, Herra Hnetusmjör, Flóni og Huginn, Jón Jónsson og hljómsveitin Between Mountains, Young Karin, Míó Tríó, DJ Dóra Júlía og fleiri.
Skráningargjald á Unglingalandsmót UMFÍ er 7.000 krónur og geta allir sem vilja skráð sig til leiks. Greiða þarf gjaldið til að geta klárað skráningu. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í fjölbreyttri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp á.
Allt um Unglingalandsmót UMFÍ á www.ulm.is
Hér er listi yfir allt sem er í boði á Unglingalandsmóti UMFÍ
Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ
Hér má sjá nokkrar myndir frá mótinu á Egilsstöðum í fyrra.