Eins metra regla í stað tveggja metra
Sóttvarnaráðstafanir verða rýmkaðar frá og með mánudeginum 7. september næstkomandi. Þá mega 200 manns koma saman en áður máttu 100 manns koma saman. Eins verður tekin upp eins metra regla í stað tveggja metra reglunnar.
Hingað til hefur eins metra nálægðarregla gilt í framhalds- og háskólum. Breytingarnar eru í samræmi við tillögur sem Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sendi Svandísi á miðvikudag.
Rifjað er upp í umfjöllun um málið á RÚV að hámarksfjöldi breyttist á sund- og baðstöðum úr því að vera helmingur af leyfilegum hámarksfjölda í 75 prósent. Íþróttir, sviðslistir og önnur menningarstarfsemi getur farið fram þrátt fyrir eins metra regluna því þar verða snertingar heimilaðar. Engin breyting verður gerð á opnunartímum vínveitingastaða, þeir mega áfram vera opnir til klukkan 23:00.