Fara á efnissvæði
28. ágúst 2021

Ekki grímuskylda á íþróttaviðburðum utandyra

Grímuskylda er ekki lengur á íþróttaviðburðum sem fara fram utandyra ef að hámarki 200 einstaklingar eru í sama rými. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýjustu tilslökunum heilbrigðisráðherra. Nýju reglurnar tóku gildi í morgun, laugardaginn 28. ágúst.

Á sama tíma hefur ráðherra ákveðið útfærslu á notkun hraðprófa á viðburðum.

Reglugerðarákvæði um notkun hraðprófa tekur gildi 3. september.

Í samræmi við það sem fram kom í tilkynningu Stjórnarráðsins  um boðaðar tilslakanir og notkun hraðprófa hefur verið fundað með hagsmunaaðilum sem standa fyrir stórum viðburðum til samráðs um frekari útfærslu, s.s. fulltrúum íþróttahreyfingarinnar, samtökum atvinnuveitenda í sviðslistum og fleiri aðilum.

Á vef Stjórnarráðsins segir að nú liggi fyrir ákvörðun um að á viðburðum þar sem hraðpróf eru nýtt verði fólki heimilt að taka niður grímu þegar það situr. Enn fremur verði börnum á leik- og grunnskólaaldri heimilt að mæta á slíka viðburði án þess að krafist sé niðurstöðu úr hraðprófi.

Stefnt er að því að framkvæmd hraðprófa verði komin á fullt skrið um miðjan september og að prófin verði þá gjaldfrjáls. Í undirbúningi er að leita samninga um framkvæmdina. 

Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar