30. október 2017
Ekki missa af Lýðheilsusjóði
Nú fer hver að verða síðastur til þess að sækja um styrk í Lýðheilsusjóð. Opið hefur verið fyrir umsóknir í sjóðinn um nokkurt skeið og verður lokað fyrir ferlið 1. nóvember næstkomandi. Það eru því eftir aðeins rétt tæpir tveir dagar til að sækja um styrki í sjóðinn vegna verkefna sem tengjast heilsueflingu og forvörnum á sviði geðræktar, næringar, hreyfinga og tannverndar auk áfengis-, vímu- og tóbaksvarna.
Við ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum er lögð áhersla á eftirfarandi:
- Aðgerðir sem miða að því að efla geðheilsu.
- Árangursríkar áfengis- og vímuvarnir.
- Aðgerðir sem miða að heilbrigðu mataræði og hreyfingu.
- Aðgerðir til að draga úr tóbaksnotkun.
- Verkefni sem beinast að minnihlutahópum til að stuðla að jöfnuði til heilsu.
- Forvarnir gegn sjálfsvígum.
Við úthlutun verður tekið mið af lýðheilustefnu velferðarráðuneytisins (Lýðheilsustefna og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi)
Lýðheilsusjóður er stofnaður á grunni Forvarnasjóðs. Markmið hans samkvæmt lögum er að styrkja lýðheilsustarf.