Fara á efnissvæði
16. mars 2020

Ekki tím­inn til að taka neina áhættu

„Þetta er ekki tíminn til að taka neina áhættu. Við leggjum áherslu á að allir iðkendur í íþróttastarfi njóti vafans í baráttunni gegn útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Hér gildir að horfa í eigin barm og hlíta tilmælum yfirvalda í ystu æsar. Það á ekki að gefa neinn afslátt af þeim tilmælum sem yfirvöld hafa sett fram til að sporna við útbreiðslu þessarar veiru,‟ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

UMFÍ sendi í kvöld öllum sambandsaðilum og aðildarfélögum UMFÍ tilmæli landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna ríkislögreglustjóra um íþróttastarf á meðan samkomubann er í gildi. Tilmælin eru þau að ekki er talið ráðlagt að gera ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir leik- og grunnskólabörn íþrótta- og ungmennafélaga fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars næstkomandi. Íþróttaiðkun framhaldsskólanema og fullorðinna er talin heimil að uppfylltum ákveðnum og ströngum skilyrðum. Yfirvöld segja ljóst að að þessi skilyrði munu því miður útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina um land allt.

UMFÍ og ÍSÍ hafa átt í samskiptum við almannavarnir um helgina í tengslum við samkomubann sem sett verður á Íslandi í kvöld og varir næstu fjórar vikur til að fá svör við því hvort æfingar barna og yngri flokka auk ungmenna og fullorðinna megi fara fram.

Auður Inga segir ljóst að íþróttastarf um allt land mun verða fyrir áhrifum og hvetur hún íþrótta- og ungmennafélög til að koma því á framfæri við iðkendur og félagsmenn hvað af íþróttastarfsemi þeirra þau telja að geti farið fram að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram hafa komið.

 

Spurningar og svör um COVID-19: www.umfi.is

Tengd umfjöllun:

Samkomubann mótar íþróttastarfið

Mikil samstaða innan íþróttahreyfingarinnar

Áhrif samkomubanns á íþrótta- og æskulýðsstarf

Samkomubann og nánari leiðbeiningar væntanlegar